Oklahoma City Thunder jöfnuðu metin í einvíginu gegn meisturum LA Lakers með öruggum sigri í nótt. Á sama tíma jöfnuðu Portland Trail Blazers metin gegn Phoenix Suns, Milwaukee Bucks minnkuðu muninn gegn Atlanta Hawks og Orlando Magic eru komnir á fremsta hlunn með að senda Charlotte Bobcats í sumarfrí.
Fáir bjuggust við því í lok deildarkeppninnar að hið unga og efnilega lið Oklahoma City Thunder myndi ná að stríða hinum þrautreyndu Lakers, sérstaklega þar sem þeir síðarnefndu hafa mikla yfirburði undir körfunum með þá Andrew Bynum, Lamar Odom og Pau Gasol. Eftir að Lakers unnu sína heimaleiki hafa Thunder hins vegar leikið eins og andsetnir menn og var sigurinn í nótt aldrei í hættu.
Thunder tóku stjórnina strax í fyrsta leikhluta þar sem Kobe Bryant reyndi að dreifa spilinu hjá Lakers með takmörkuðum árangri. Leikurinn kláraðist svo í þriðja leikhluta og flest allir byrjunarliðsmenn sátu á bekkjunum.
Nú fer serían aftur til LA og er deginum ljósara að Lakers verður að taka á öllu sínu ætli þeir ekki að fara í snemmbúið sumarfrí.
Brandon Roy sneri óvænt aftur í lið Portland, átta dögum eftir að hann undirgekkst speglun á hné, og skipti sköpum og setti m.a. tvær mikilvægar körfur á lokasprettinum.
Hann losaði einnig um framherjann LaMarcus Aldridge sem hefur verið í gjörgæslu í fyrstu þremur leikjunum, og hann svaraði með því að skora 31 stig og taka 11 fráköst.
Milwaukee hafa ekki haft mikið erindi í geysisterkt lið Atlanta hingað til í seríunni, en flestallir leikmenn Bucks voru að skila sínu og rúmlega það á meðan Joe Johnson var sá eini með lífsmarki hjá Hawks. Milwaukee byrjuðu með miklum látum og með sterkum leik í fyrsta leikhluta náðu þeir forystu sem Hawks náðu aldrei að ógna.
Næsti leikur fer einnig fram í Milwaukee og verður fróðlegt að sjá hvort Bucks geti gert frekari rósir eða hvort Hawks detti í gang á ný.
Bobcats geta varla beðið um betra færi á sigri gegn Magic þar sem Dwight Howard var í miklum villuvandræðum og Vince Carter var ekki að finna sig. Jameer Nelson var hins vegar sjóðheitur og skoraði 32 stig.
Leikurinn var hnífjafn þar sem liðin skiptust á að taka sínar rispur. Bobcats náðu níu stiga forystu í upphafi seinni hálfleiks en Magic svöruðu 11-0 og svo var staðan jöfn fyrir lokaleikhlutann.
Bobcats voru með forystu þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka, en þar kom í l´jos munurinn á liðunum þar sem Magic sigu framúr og kláruðu loks leikinn á vítalínunni.



