Úrslitahelgi yngri flokka heldur áfram að fullnægja þörfum spennufíkla en rétt í þessu varð KR Íslandsmeistari eftir magnaðan úrslitaleik gegn Stjörnunni. Lokatölur í leiknum voru 50-52 KR í vil þar sem Þorgeir Kristinn Blöndal reyndist hetja KR er hann skoraði í teig Stjörnunnar þegar 0,3 sekúndur voru til leiksloka. Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson var valinn besti maður leiksins með 13 stig og 17 fráköst en þetta var fullkomið tímabil hjá KR sem einnig urðu bikarmeistarar fyrr á árinu.
Garðbæingar voru mun sprækari í upphafi leiks og komust í 8-0 eftir tvo þrista frá Degi og Cannon í liði Stjörnunnar. Bæði lið voru að pressa í upphafi leiks og áður en leið á löngu voru Garðbæingar komnir í svæðisvörn. Stjarnan leiddi svo 21-12 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Vesturbæingar vitust hálfsofandi.
KR-ingar mættu klárir í annan leikhluta og byrjuðu 6-0 og þá tóku Garðbæingar leikhlé. KR hélt áfram að nálgast uns þeir jöfnuðu leikinn í 23-23 þegar Oddur Rúnar Kristjánsson braust upp endalínuna og skoraði af stuttu færi. Stjarnan átti þó lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu 27-26 í hálfleik.
Strax í þriðja leikhluta fóru KR-ingar að uppskera betur í pressunni sinni og óx þeim ásmegin svo þeir náðu 10 stiga forystu, 34-44. Munaði miklu fyrir Stjörnuna að Dagur Jónsson var hvíldur töluvert í þriðja leikhluta þar sem hann var kominn með fjórar villur. Dagur kom aftur í lið Stjörnunnar undir lok þriðja hluta og Stjörnumenn efldust til muna. KR leiddu þó 37-44 fyrir fjórða leikhluta.

Stjörnumenn mættu ákveðnir í fjórða leikhluta þar sem Heiðar Ægisson minnkaði muninn í 43-44 með þriggja stiga körfu og skömmu síðar náði Christopher Sófus Cannon að jafna fyrir Stjörnuna með þriggja stiga körfu og staðan 46-46. Framundan var æsilegur lokasprettur!
Tæpar tvær mínútur voru til leiksloka og staðan 50-50 þegar allt fraus í sóknarleik liðanna. Tíminn leið og KR-ingar náðu varnarfrákasti eftir mislukkað Stjörnuskot þegar 22 sekúndur voru til leiksloka. Vesturbæingar skokkuðu rólega í sókn og Oddur Rúnar hékk á boltanum uns tímabært var að sækja, að lokum fann hann Þorgeir Kristinn í teignum sem skilaði boltanum í körfuna og staðan 50-52 fyrir KR og 0,01 sekúnda eftir á klukkunni.
Reyndar breyttu dómarar leiksins klukkunni í 0,3 sekúndur þar sem tímaverðir höfðu misst tímann lítið eitt frá sér. Stjarnan tók leikhlé og dómararnir fræddu bæði lið um að ekki væri hægt að grípa boltann á þessum tíma og skora heldur yrði að blaka honum. Stjarnan tók innkast á miðjum vellinum en KR vörðust vel og tíminn rann út og Vesturbæingar fögnuðu sigri.
Frábær leikur að baki og enn ein eftirminnileg viðureignin í úrslitum yngri flokka þetta árið sem hafa verið frábær skemmtun.
Oddur Rúnar Kristjánsson gerði 21 stig í liði KR, Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson var honum næstur með 13 stig og 17 fráköst og Hugi Hólm gerði einnig 13 stig í liði KR. Hetja Vesturbæinga, Þorgeir Kristinn Blöndal, gerði 3 stig í leiknum, eitt af vítalínunni og svo sigurstigin.
Hjá Stjörnunni var Dagur Kár Jónsson stigahæstur með 19 stig og 8 fráköst en honum næstur kom Magnús Guðmundsson með 16 stig og 8 stolna bolta.




