spot_img
HomeFréttirKeflavík Íslandsmeistari í 10. flokki kvenna

Keflavík Íslandsmeistari í 10. flokki kvenna

 
Keflavík varð í dag Íslandsmeistari í 10. flokki kvenna eftir öruggan 74-56 sigur á Haukum í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum í Kópavogi. Eva Rós Guðmundsdóttir var valin besti maður leiksins með 14 stig og 11 fráköst. Flottur vetur að baki hjá Keflavíkurkonum í 10. flokki þar sem þær urðu einnig bikarmeistarar og þjálfararnir Erla Reynisdóttir og Skúli Sigurðsson geta sátt við unað enda fullt hús hjá þeim hjúum í vetur með 9. og 10. flokk Keflavíkur í kvennaboltanum. 
Haukastelpur hófu leikinn í svæðisvörn en Keflvíkingar mættu með pressuvörn allan völl frá fyrstu mínútu. Staðan var 4-2 Keflavík í vil eftir þriggja mínútna leik en eftir þessar fyrstu þrjár og köldu mínútur fóru stigin að detta inn og jafnt á öllum tölum, 8-8, 11-11 en hér skildu leiðir. Keflavík gerði 5 stig í röð á aðeins 7 sekúndum, fyrst þristur og svo stolinn bolti í pressu sem endaði með körfu og staðan skyndilega 17-11 Keflavík í vil. Haukar náðu þó að klóra aðeins í bakkann en Keflavík leiddi að loknum fyrsta leikhluta 20-16.
 
Þegar skammt var liðið af öðrum leikhluta fékk Margrét Rósa Hálfdánardóttir sína fjórðu villu í liði Hauka og komið í óefni hjá Hafnfirðingum enda Margrét Rósa einn sterkasti spilari liðsins. Margrét hélt á bekkinn í stöðunni 24-18 og eftir þetta bakslag fór að síga á ógæfuhliðin hjá Haukum.
 

Keflvíkingar skoruðu 8-0 á Hauka með Margréti á bekknum og komust í 32-18 og leiddu síðan í hálfleik 38-25. Eva Rós Guðmundsdóttir var með 12 stig í hálfleik hjá Keflavík en Margrét Rósa var með 11 stig hjá Haukum á þeim 10 mínútum sem hún lék í fyrri hálfleik.
 
Aldís Braga Eiríksdóttir setti niður Haukaþrist í upphafi síðari hálfleiks og minnkaði muninn í 41-30 en Keflvíkingar höfðu frumkvæðið og ekki leið á löngu uns Aníta Eva Viðarsdóttir jók muninn í 51-38 fyrir Keflavík með þriggja stiga körfu en Aníta var að hitta vel í Keflavíkurliðinu í dag enda valdi hún oftast góðu skotin í leiknum.
 
Á lokamínútum þriðja leikhluta sigu Keflvíkingar lengra framúr og leiddu 62-46 fyrir lokasprettinn.
 
Í fjórða leikhluta var það í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti eftir að miðherji Hauka, Lovísa Björt Henningsdóttir, fór af leikvelli með 5 villur. Keflavík hélt fengnum hlut og unnu að lokum verðskuldaðan 74-56 sigur.
 
Aníta Eva Viðarsdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 19 stig og 4 fráköst en næstar henni voru þær Lovísa Falsdóttir og Eva Rós Guðmundsdóttir báðar með 14 stig en Eva var auk þess með 11 fráköst.
 
Hjá Haukum var Margrét Rósa Hálfdánardóttir með 21 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar en þar á eftir kom Lovísa Björt Henningsdóttir með 18 stig og 12 fráköst.
 
Fréttir
- Auglýsing -