spot_img
HomeFréttirFalur: Heppni skiptir litlu máli í úrslitum

Falur: Heppni skiptir litlu máli í úrslitum

 
Keflvíkingar eru með bakið upp við vegg. Tap í kvöld þýðir að Snæfell verður Íslandsmeistari en sigur tryggir Keflvíkingum oddaleik í Toyota-höllinni. Karfan.is greip Fal Harðarson glóðvolgan en Falur var bæði sigursæll sem leikmaður og þjálfari í Keflavík. Við duttum aðeins inn á sálfræðilínuna í einvíginu og vildi Falur meina að heppni væri eitthvað sem skipaði ekki stóran sess í úrslitarimmum.
 
Verður oddaleikur í seríunni?
Já, en það er ef… Keflavík getur alveg unnið Snæfell hvar sem er og hvenær sem er en þeir verða að trúa því. Þeir verða að trúa á það skipulag sem lagt er fyrir þá fyrir leikinn. Það var óvanalegt að sjá að Bradford væri sá leikmaður í liði Keflavíkur sem var tilbúnastur í leikinn í þriðja leik. Kjarninn í liði Keflavíkur þurfti að koma tilbúnari til leiks og hann var bara ekki tilbúinn í leik þrjú.
 
Keflavík hefur farið langt í vetur með sterkri vörn á bakkarana í liði andstæðinganna en með tilkomu Jeb Ivey hefur Snæfell gengið betur gegn þessari sterku vörn Keflavíkur. Þurfa Keflvíkingar að svara þessu með breyttum áherslum í vörninni?
Það er ekki víst að Keflavík þurfi að svara með breyttum áherslum heldur eiga þeir ekki að örvænta þó þessi pressa virki ekki alveg jafn mikið eins og á móti öðrum liðum. Þessi skipti, og nú er ég ekki að tala niður til Sean Burton, en Jeb Ivey er töluvert betri leikmaður. Hann er mun reyndari og búinn að spila úti um allt og erfitt að bera þá saman þar sem ég tel Ivey vera betri.
 
Á sama tíma skiptir Keflavík út Burns fyrir Bradford, hverfur ógnin fyrir utan þriggja stiga línuna með hvarfi Burns úr röðum Keflavíkur?
Burns er betri þriggja stiga skytta en Bradford en hann kemur inn með fullt af hlutum sem Burns hefur ekki. Nick er betri varnarmaður og betri frákastari og ég er rosalega hlynntur þessari reglu að kanar geti komið og farið hvenær sem er því enginn heilvita þjálfari skiptir um kana þegar í úrslit er komið nema bara af illri nauðsyn. Hefði Snæfell ekki fengið að skipta um leikmann þá væri þetta ekki sama Snæfellsliðið og er komið í úrslit. Auðvitað hefur þetta eitthvað með heppni að gera, hvernig hlutirnir spilast, en heppnin á að skipta litlu máli þegar í úrslit er komið.
 
Hver er þín tilfinning fyrir leik kvöldsins?
Mögulega getum við séð það að Keflavík komi tilbúið til leiks og ég vona að svo verði. Ég vona að Keflavík gefi okkur hörkuleik í kvöld og eigi möguleika á sigri þegar lítið verður eftir af leiknum. Að sama skapi er líka gríðarleg pressa á Snæfell, þeir hafa aldrei unnið titilinn og eru í óvanalegum sporum.
 
Hvað með sálfræðina og stöðu þeirra mála í einvíginu?
Sama hvort Snæfell sé að verða meistari eða Keflavík að tryggja sér oddaleik þá segja allir leikmenn á þessum tíma: þetta hefur engin áhrif á mig! Ég er bara að fara að spila leik! – Í undirmeðvitundinni eru menn að hugsa: ég á séns á því að vinna minn fyrsta Íslandsmeistaratitil og það á heimavelli. Nú tala ég af reynslu, þó maður segist ekki hugsa um þessa hluti þá gerir maður það samt og annað er bara ómennskt segi ég. Auðvitað reyna menn að einbeita sér að leiknum en þegar það fer að glitta í titilinn, lítið eftir af leiknum og þú sér bikarinn ásýndar, þá veistu nákvæmlega hvað er að gerast. Við í Keflavík vorum í þessari stöðu árið 1991. Vorum 2-1 yfir gegn Njarðvík, fórum til Keflavíkur og töpuðum fjórða leiknum og töpuðum fimmta leiknum í Njarðvík og þeir meistarar.
 
Þú fullyrðir sem sagt að vera Íslandsmeistaratitilsins í íþróttahúsunum trufli, og þá jafnvel bæði lið?
Auðvitað á hann að vera í húsinu því það er möguleiki á því að hann fari á loft en ég fullyrði að það sé fáránlegt að segja að hann og vera hans í húsinu hafi ekki áhrif á einhverja leikmenn. Hver verður svo að meta það á sinn hátt hvað áhrif þetta kann að hafa.
 
Fréttir
- Auglýsing -