spot_img
HomeFréttirSnæfell-Keflavík: Oddaleikur í Keflavík!

Snæfell-Keflavík: Oddaleikur í Keflavík!

 
Fjórða viðureign Keflavíkur og Snæfells. Staðan í einvíginu er 2-1 Snæfell í vil sem getur með sigri í kvöld fagnað Íslandsmeistaratitli. Takist Keflavík að knýja fram sigur verður oddaleikur í Toyota-höllinni. Karfan.is mun uppfæra reglulega stöðuna úr hverjum leikhluta fyrir sig.
4. leikhluti
Blóð og mikið af því! Þrír leikmenn með höfuðklúta úr læknishöndum eftir leik kvöldsins, blóð á gólfinu og lokatölur 73-82 Keflavík í vil. Keflvíkingar höfðu undirtökin í leiknum og létu frumkvæðið aldrei af hendi. Mögnuð vörn gestanna tryggði þeim sigurinn og þeirra atkvæðamestur var Urule Igbavboa með 20 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Atkvæðamestur í liði Snæfells var Jeb Ivey með 22 stig og 7 stoðsendingar. Oddaleikurinn verður í Keflavík á fimmtudag en það lið sem vinnur þann leik verður Íslandsmeistari. Nánar verður greint frá leiknum innan tíðar.
 
3. leikhluti
Keflavík leiðir 57-60 að loknum þriðja leikhluta í Stykkishólmi. Leikhlutinn var jafn og harður en heimamenn unnu hann 23-20. Vítanýting beggja liða er efni í brandarabók um þessar mundir og ljóst að taugarnar eru þandar. Keflvíkingar eru komnir í töluverð villuvandræði þar sem Hörður Axel er kominn með fjórar villur. Ekki eru teljandi vandræði í herbúðum Hólmara nema þá gegn sterkri vörn gestanna. Fjórði leikhluti var að hefjast og lokaspretturinn verður magnaður…
 
2. leikhluti
Keflvíkingar komu grimmir inn í annan leikhluta og skipti þar sköpum neisti frá Sverri Þór Sverrissyni sem mætti með tvær rándýrar þriggja stiga körfur á skömmum tíma. Hörður Axel Vilhjálmsson fylgdi í kjölfarið með tvo þrista til viðbótar og Keflavíkurvörnin var fyrnasterk á löngum köflum. Jeb Ivey hefur haft sóknarfrumkvæðið hjá Snæfell en teignýting heimamann hefur verið hræðileg eða 27%. Þess má svo geta að Keflvíkingar eru í hálfleik með betri þriggja stiga nýtigu en vítanýtingu, gestirnir hafa sett niður 5 af 9 þristum sínum í leiknum en aðeins 1 af 8 vítum! Jón N. Hafsteinsson þurfti frá að víkja um miðbik annars leikhluta þegar hann fékk högg á höfuðið og það blæddi mikið og Jón var augljóslega vankaður eftir þessi vistaskipt, spurning hvort hann leiki með í síðari hálfleik. Sigurður Þorsteinsson er stigahæstur hjá Keflavík í augnablikinu með 10 stig en Jeb Ivey er kominn með 13 stig í liði Snæfells.
 
1. leikhluti
Snæfell leiðir 19-12 að loknum fyrsta leikhluta. Keflvíkingar mættu með pressuvörn í leikinn þar sem Nick Bradford var uppi á toppnum. Spennan er töluverð í húsinu og liðunum gengur svona þokkalega að finna körfuna. Jeb Ivey er kominn með 8 stig í liði Hólmara en hjá Keflavík er miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson kominn með 8 stig í liði Keflavíkur.
 
Byrjunarliðin:
 
Snæfell: Jeb Ivey, Emil Þór Jóhannsson, Martins Berkis, Sigurður Ágúst Þorvaldsson og Hlynur Elías Bæringsson.
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Nick Bradford, Urule Igbavboa og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
 
Ljósmynd/ Sá stóri er mættur í hús. Fer hann á loft í kvöld eða þurfa körfuknattleiksunnendur að bíða fimmtudagsins?
Fréttir
- Auglýsing -