spot_img
HomeFréttirAfskriftum lokið: Viljinn ræður för á fimmtudag

Afskriftum lokið: Viljinn ræður för á fimmtudag

 
Af öllum þeim sem ég ræddi við fyrir fjórða leik Snæfells og Keflavíkur í úrslitum Iceland Express deildarinnar var aðeins einn sem átti von á Keflavíkursigri, sá aðili er ekki Keflvíkingur. Hann hafði þetta bara á tilfinningunni. Aðrir voru búnir að afskrifa Keflvíkinga, töldu næsta víst að nú myndu Hólmarar klára dæmið heima en annað kom á daginn. Sé svo tekið mið af þeim fáu stuðningsmönnum Keflavíkur sem mættu á leik fjögur í Stykkishólmi stendur sú túlkun fyllilega heima að meginþorri þeirra hafi heldur ekki haft trú á verkefninu, þeir afskrifuðu sitt eigið lið!
Nú ætti það að vera eitt verst geymda leyndarmálið í íslenskum körfubolta að Suðurnesjaliðin hafa verið svotil einráð síðustu 20 árin eða svo í boltanum. Keflavík hefur á þessum tíma átt þá ófáa titlana en samt hefur liðið verið afskrifað hvað eftir annað þessa leiktíðina. Nú hafa Keflvíkingar einfaldlega fengið nóg, þeir lögðu Snæfell frammi fyrir fullu Fjárhúsi og þeim að baki voru kannski 50 stuðningsmenn af Suðurnesjum, alls ekki fleiri en það. Karfan.is hefur það staðfest að 12 manns mættu í rútuferðina í Hólminn frá Keflavík, 12 úr bæjarfélagi sem stendur í rúmlega 10.000 manns!
 
Eftir fyrsta leikinn í einvíginu sögðu spámennirnir, nú jæja – Keflavík tekur þetta 3-0. Snæfell vinnur tvo næstu leiki og þá hváðu spámenn, nú jæja – er tími Snæfells kominn? Hvað segja þeir núna?
-Ekki séns að Keflavík tapi heima
eða
-Snæfell er betra á útivelli en heimavelli
 
Magnað hefur verið að fylgjast með því og heyra hvernig líkurnar hoppa á milli liðanna og hvað fólk telji að muni gerast. Fæstir hefðu nú getað spáð því fyrir að í leik fjögur yrðu þrír leikmenn blóðgaðir og einn þeirra myndi þurfa 10 spor í höfuðið eftir viðkomu á heilsugæslunni í Hólminum. Erindið er kannski þetta, í gegnum úrslitaeinvígið hefur fólk verið að gefa sér forsendur, draga ályktanir og fullyrða út frá þeim. Bæði Keflavík og Snæfell hafa sýnt í þessari seríu að það er ekki á vísann að róa. Nærtækustu dæmin í þessum efnum eru kannski Jeb Ivey og Nick Bradford – þvílíkur Santa Barbara fílingur í kringum komur þessara manna.
 
Hvaða forsendur hafa áhorfendur nú fyrir oddaleikinn? Staðan er jöfn 2-2, við erum búin að sjá burstleiki, baráttu, blóð og jafnan leik. Við eigum bara eftir að sjá oddaleikinn og síðasti oddaleikur sem við sáum í úrslitaeinvígi í karlaflokki var í fyrra þar sem úrslitin réðust á lokasekúndum leiksins. Ég ætla að gefa mér það að forsendu eða ,,spá“ fyrir um með snert af von að oddaleikurinn á fimmtudag verði af sama meiði og oddaleikur KR og Grindavíkur í fyrra. Ég læt mér ekki detta til hugar að spá fyrir um sigurvegara í leiknum því bæði lið hafa sýnt að þau eiga fullkomið erindi í gullsætið, á fimmtudag verður það bara viljinn sem ræður, sama hvað við spámannshræin höfum um það að segja.
 
 
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -