spot_img
HomeFréttirJamal Crawford sjötti maður ársins

Jamal Crawford sjötti maður ársins

Jamal Crawford, bakvörður Atlanta Hawks, var í dag útnefndur varamaður ársins í NBA, sjötti maður ársins, en hann hlaut yfirburðakosningu í kjöri íþróttafréttamanna.
Crawford kom sterkur inn á þessu fyrsta ári sínu með Atlanta, þar sem hann skoraði 18 stig í leik af bekknum, var með 2.5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á rúmum 30 mínútum. Hann spilaði 79 leiki í vetur og byrjaði ekki einn einasta og var með mikla yfirburði yfir næstu menn í valinu á varamanni ársins. Hann hlaut þannig 580 af 610 mögulegum stigum í kjörinu, en í öðru sæti var Jason Terry, sigurvegari síðasta árs, og Anderson Varejao varð í þriðja sæti.
 
Hann er einn af lykilmönnum liðsins og kemur inn af bekknum þegar Mike Bibby og Joe Johnson þurfa hvíld. Það hefur gefið góð raun, enda voru Atlanta með sterkari liðum í Austurdeildinni í vetur og enduðu í þriðja sæti, m.a. á undan Boston Celtics.
 
Crawford og Hawks eru nú í harðri rimmu við Milwaukee Bucks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en gaman er að geta þess að þetta er í fyrsta sinn á tíu ára ferli Crawfords sem hann spilar í úrslitakeppninni, en hingað til hefur hann mátt sætta sig við að skila góðum tölum fyrir hræðilega léleg lið, eins og Chicago Bulls (2000-04), NY Knicks (2004-2008) og Golden State (2009).
 
Fréttir
- Auglýsing -