Stórleik kvöldsins er beðið með mikilli eftirvæntingu en þá ræðst hvort Keflavík eða Snæfell verði Íslandsmeistari í úrvalsdeild karla leiktíðina 2009-2010. Karfan.is ræddi við Sigurð Ingimundarson, þjálfara Njarðvíkinga, um leik kvöldsins og sagði kappinn að í svona leikjum væri hvorugt liðið sigurstranglegra.
,,Í svona leik finnst mér ólíklegt að eitthvað lið fari að tapa stórt, það væru eiginlega svik. Ég tel að í kvöld fái maður allt sem hægt er að fá út úr körfuboltaleik,“ sagði Sigurður en mun sverfa til stáls með blóðugum afleiðingum líkt og í fjórða leiknum í Hólminum?
,,Mér fannst leikur fjögur í Hólminum reyndar ekkert grófur eða slæmur, hann var ekki eins harður og grófur og verið er að tala um. Þetta voru tilviljanir og slys en það er svo sem í lagi að fá smá pústra öðru hvoru,“ sagði Sigurður en við inntum hann eftir því hvort það gæti skipt máli í kvöld að Keflvíkingar væru margfaldir Íslandsmeistarar en Snæfell hafi aldrei unnið titilinn.
,,Það getur skipt máli, það getur alveg haft áhrif á leikinn en þegar menn eru að fara inn í svona leik er betra að útiloka allt utanaðkomandi, allt nema leikinn. Annars mun það lið vinna sem fær framlag frá fleirum. Í þessum leikjum hafa menn skipst á því að stíga upp og verið að gera meira en aðrir en því fleiri sem stíga upp því meiri eru sigurlíkurnar og það mun ráða úrslitum í kvöld,“ sagði Sigurður en hvaða sess skipar taktík liðanna í svona leik?
,,Það er ólíklegt að menn komi með eitthvað nýtt í oddaleiknum, það gæti verið of mikil áhætta en vel getur verið að menn prófi eitthvað að eins að bregða út af skipulaginu en það er ekkert aðalatriði í þessu,“ sagði Sigurður en hvað sér hann maður á mann?
,,Ef við skoðum t.d. Gunnar Einarsson og Martins Berkis þá skora þeir ekki körfu utan af velli í síðasta leik, það verður ekki núna. Eins hefur það verið skemmtilegt einvígi að sjá Hörð Axel og Jeb Ivey kljást, það er athyglisverð barátta og mér finnst þeir tveir hafa verið að gera skemmtilega hluti. Hlynur hefur svo verið að spila frábærlega en Keflavík með þá Urule og Sigurð Þorsteinsson undir körfunni voru kraftmiklir gegn Hlyn í fjórða leiknum. Framlag Sigurðar voru jákvæðar fréttir fyrir Keflvíkinga en annars eru bæði lið með leikmenn sem geta breytt þessum leikjum heilan helling og nægir þar að nefna leikmenn eins og Sverri Þór og Jón Ólaf. Þetta eru skemmtileg ,,match-up“ hjá þessum tveimur liðum.“
Að vera þjálfari í svona leik er vísast skemmtilegt og krefjandi en hvernig finnst Sigurði kollegum sínum þeim Guðjóni og Inga hafa gengið með liðin?
,,Þeir standa sig báðir vel enda báðir einum leik frá titlinum. Þeir hafa verið að gera vel og þeim hefur tekist að rífa liðin sín upp eftir laka leiki og það er ekki alltaf auðvelt. Þeir virðast vera að gera fína hluti og kljást báðir við mikið spennuástand í sínum liðum. Nú eru þeir báðir komnir í oddaleik og bara spurning hvernig þetta fer. Þáttur þjálfara í svona leikjum getur verið stór en þegar út í leikinn sjálfan er komið er það hópurinn allur, hvernig hann hefur unnið úr sínum málum og þar skiptir þjálfarinn miklu máli,“ sagði Sigurður en hvort liðið telur hann sigurstranglegra?
,,Hvorugt liðið er sérstaklega sigurstranglegra en hitt, þau eru bæði komin með heima- og útisigra svo þetta verður bara magnaður leikur og ég hugsa að það verði ekki auðvelt að fá miða á þennan leik.“



