Á þessum árstíma og áfram inn í sumarið verða oft miklar breytingar á liðunum í íslenska körfuboltanum. Morgunblaðið greinir frá tíðindum úr herbúðum Hamars, Vals og Grindavíkur:
Breytingar hjá Hamri
Tveir til þrír leikmenn úr karlaliði Hamars úr Hveragerði gætu verið á förum frá félaginu. Leikstjórnandinn Oddur Ólafsson og miðherjinn hávaxni Ragnar Nathanelsson munu líklega leika í Bandaríkjunum á næstu leiktíð. Páll Helgason er einnig að hugsa sinn gang og er allt eins líklegt að hann fari til Danmerkur í nám.
Ari er hættur að þjálfa Val
Ari Gunnarsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik. Ari staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta var sameiginleg ákvörðun. Liðið er nú í 1. deild og aðstæður eru breyttar. Þá þarf að minnka kostnað og ýmislegt þess háttar,“ sagði Ari..
Jovana fer frá Grindavík
Jovana Stefánsdóttir mun ekki leika með Grindavík í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næstu leiktíð. Jovana flytur til Þýskalands þar sem unnusti hennar Arnór Gunnarsson handknattleiksmaður úr Val hefur samið við Bittenfeld sem leikur í 2. deild.
Ljósmynd/ Hugsanlegt er að Oddur Ólafsson sé á leiðinni til Bandaríkjanna í nám en hann stimplaði sig rækilega inn í lið Hamars á leiktíðinni.



