spot_img
HomeFréttirSnæfell Íslandsmeistari 2010!

Snæfell Íslandsmeistari 2010!

 
Snæfell er Íslandsmeistari eftir yfirburðasigur á Keflavík 69-105 í oddaviðureign liðanna í Toyotahöllinni. Snæfell leiddi frá upphafi til enda og höfðu algera yfirburði í leiknum. Hlynur Bæringsson gerði 21 stig og tók 15 fráköst í liði Hólmara en hjá Keflavík var Urule Igbavboa með 23 stig og 6 fráköst.
Til hamingju Hólmarar – nánar verður svo greint frá leiknum síðar….
-Staðan er 64-98 þegar 3 mínútur eru til leiksloka og það er ljóst að Snæfell verður Íslandsmeistari leiktíðina 2009-2010. Fullt hús hjá Hólmurum þessa leiktíðina sem einnig eru ríkjandi Subwaybikarmeistarar.
 
-Snæfell leiðir 58-84 þegar 7 mínútur eru eftir af fjórða leikhluta. Fátt annað en kraftaverk dugir fyrir Keflvíkinga í augnablikinu.
 
-Staðan er 54-77 að loknum þriðja leikhluta og nú eru Hólmarar með pálmann í höndunum. Fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins er innan seilingar og síðasti séns fyrir Keflavík að gera atlögu að forystu gestanna.
 
-Staðan er 49-68 og 3 mínútur eftir af þriðja leikhluta. Keflvíkingar hafa verið sterkari en eru ekki komnir nægilega nálægt, Hólmarar sitja enn við kjötkatlana og leika af festu. Það vantar framlag frá lykilmönnum Keflavíkur og sem dæmi er Nick Bradford bara kominn með 2 stig í leiknum!
 
-Skotnýting liðanna í hálfleik:
Keflavík: 2ja stiga-50%, 3ja stiga-0%, vítaskot 44,4%
Snæfell: 2ja stiga-62,5%, 3ja stiga-52,9%, vítaskot 100%
 
-Staðan í hálfleik er 30-56 Snæfell í vil! Hólmarar hafa verið sjóðheitir í fyrri hálfleik á meðan heimamenn í Keflavík hafa ekki séð til sólar. Hólmarar hafa sett niður 9 af 17 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik á meðan Keflvíkingar hafa enn ekki skorað þrist í leiknum. Snæfellingar hafa einnig betur í frákastabaráttunni og eru einfaldlega sterkari á öllum sviðum. Emil Þór Jóhannsson er kominn með 14 stig í liði Snæfells í hálfleik en hjá Keflavík er Urule Igbavboa kominn með 8 stig og Sverrir Þór Sverrisson er með 7 og virðist vera eini Keflvíkingurinn með lífsmarki.
 
-Rétt rúm mínúta er til hálfleiks og Hólmarar leiða 30-51 og eftir tæplega 19 mínútna leik hafa heimamenn í Keflavík enn ekki skorað þriggja stiga körfu í leiknum. Flestar aðgerðir Keflvíkingar eru máttlitlar gegn einbeittum Snæfellingum. Sjáum hvað lokamínúta fyrri hálfleiks hefur upp á að bjóða…
 
-Hólmarar hafa enn þægilega forystu, 28-46 nú þegar 4.30 mín. eru til hálfleiks. Keflvíkingar hafa ekki verið nægilega grimmir í því að reyna að saxa niður forskotið þó vissulega sé annar bragur á þeim í öðrum leikhluta samanborið við deyfðina hjá heimamönnum í þeim fyrsta.
 
– Keflvíkingar byrjar 2. leikhluta 5-3 og staðan er því 24-40 þegar mínúta er liðin af öðrum leikhluta en það virðist vera að aðeins Sverrir Þór sé mættur til leiks í liði heimamanna á meðan Hólmarar eru allir sem einn funheitir.
 
– Lygilegum upphafsleikhluta var að ljúka og staðan 19-37 fyrir Snæfell sem settu niður 7 af fyrstu þristunum sínum í leiknum gegn hriplekri vörn Keflavíkur. Heimamenn náðu ekki áttum fyrr en baráttujaxlinn Sverrir Þór Sverrisson kom inn í liði heimamanna.
 
-Snæfell byrjar leikinn 2-12 og Keflvíkingar taka leikhlé þegar rétt rúmar 2 mínútur eru liðnar af leiknum.
 
Byrjunarliðin:
 
Keflavík:
Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Nick Bradford, Urule Igbavboa, Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Snæfell:
Jeb Ivey, Emil Þór Jóhannsson, Martins Berkis, Sigurður Á. Þorvaldsson, Hlynur Bæringsson.
 
Dómarar leiksins:
Sigmundur Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson
 
Ljósmynd/ Toyota-höllin er full og stuðningsmenn beggja liða eru með á nótunum.
Fréttir
- Auglýsing -