Þorsteinn Eyþórsson ljósmyndari í Stykkishólmi hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi en hann var mættur í Toyota-höllina og myndaði þar Snæfell hampa Íslandsmeistaratitlinum og hélt svo með hópnum heim í Hólm.
Tvö myndsöfn liggja eftir Þorstein en þau eru:
Þorsteinn rekur svo hér að neðan atburðarásina frá því Hólmarar héldu úr Keflavík:
Í fyrsta lagi eru þarna myndir frá mótttöku Borgnesinga við "Sjoppuna" í Borgarnesi en þar hafði fólk safnast saman og tók á móti Snæfelli með blysum og bílflauti. Á meðal þeirra sem þar voru má nefna foreldra Sigurðar Þorvaldssonar en þau eru Borgfirðingar.
Svo eru nokkrar myndir frá heimkomunni sjálfri en um 10 km fyrir utan Stykkishólm, við félagsheimilið Skjöld, tók Lögreglan á móti liðinu og keyrði á undan því með blikkandi ljós inn í Stykkishólm. Þar var keyrt upp að íþróttahúsinu og svo gengið upp á Hótel Stykkishólm sem er rétt hjá en þar biðu um 300 manns eftir liðinu með blysum, flugeldum og fagnaðarlátum. Svo var slegið upp balli með Matta og Draugabönunum.
Svo eru myndir frá því í dag en þá skrifuðu langflestir leikmenn liðsins undir tveggja ára framlengingu á sínum samningi. Meðal þeirra var heilaga þrenningin í Hólminum þeir Hlynur Elías Bæringsson, Sigurður Á. Þorvaldsson og Jón Ólafur Jónsson. Sá fyrirvari er á samningi Hlyns að hann getur yfirgefið félagið komi tilboð um atvinnumensku erlendis.
Einnig framlengdu fleiri leikmenn við félagið en það voru þeir Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Sveinn Arnar Davíðsson, Emil Þór Jóhannsson, Kristján Andrésson, Egill Egilsson og Gunnlaugur Smárason.
Allt voru þetta tveggja ára samningar sem leikmennirnir undirrituðu við félagið. Páll Fannar Helgason framlengdi ekki við Snæfell en hann hyggur á nám í Reykjavík en ku víst ekki vera búinn að ákveða hvar hann leiki næsta vetur.
Þá hefur það þegar komið fram að leikstjórnandinn Sean Burton mun leika með Snæfell á næstu leiktíð en hann missti af lokasprettinum þetta tímabilið sökum meiðsla.
Texti: Þorsteinn Eyþórsson og Jón Björn Ólafsson



