spot_img
HomeFréttirAtlanta lagði loks Milwaukee að velli - Lakers unnu fyrsta leikinn gegn...

Atlanta lagði loks Milwaukee að velli – Lakers unnu fyrsta leikinn gegn Jazz

Atlanta Hawks tókst loks að senda Milwaukee Bucks í sumarfrí þegar þeir lögðu þá í oddaleik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Á meðan, á Vesturströndinni lögðu meistarar LA Lakers Utah Jazz að velli í fyrsta leik annarar umferðar.
 
Fæstir bjuggust við að sjá Milwaukee standa uppi í hárinu á Atlanta í þessu einvígi þar sem Bucks misstu sinn besta mann, Andrew Bogut, í meiðsli rétt fyrir úrslitakeppnina. Annað kom þó á daginn þar sem lærisveinar Scott Skiles gáfust aldrei upp og náðu m.a.s. forystu í rimmunni áður en Hawks hrukku í gang og unnu síðustu tvo leikina.
 
Leikurinn í dag var ekki mjög spennandi þar sem Hawks voru einfaldlega númeri of stórir og leiddu allan leikinn. Jamal Crawford, nýkrýndur varamaður ársins, kom sterkur inn eftir dapra leiki að undanförnu og skoraði 22 stig af bekknum, en Hawks engu gott framlag frá flestum leikmönnum á meðan lykilmenn Bucks voru ekki að ná sér á strik. Nýliðinn Brandon Jennings var þeirra stigahæstur með 15 stig, en það verður fróðleg að sjá hvernig hlutirnir þróast hjá þessu skemmtilega liði á næsta ári þegar Bogut og Michael Redd verða komnir aftur úr meiðslum.
 
Hawks munu mæta liði Orlando í undanúrslitum Austurdeildarinnar.
 
 
Kobe Bryant var eins og svo oft áður bjargvættur sinna manna þegar Lakers voru hér um bil búnir að henda frá sér unnum leik gegn Utah í kvöld.
 
Jazz unnu sig úr vonlítilli stöðu í upphafi lokaleikhlutans upp í forystu, 89-93, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir, en Kobe skoraði sjö stig í röð og kveikti í sínum mönnum sem skelltu í lás í vörninni. Hann gerði svo út um leikinn með glæsilegu sniðskoti þegar 22 sek voru eftir og Lakers lönduðu mikilvægum sigri.
 
Kobe gerði 31 stig í leiknum, þar af 11 í fjórða leikhluta, og Pau Gasol gerði 25 stig og tók 12 fráköst og varði 5 skot. Andrew Bynum sem meiddist á hné í síðasta leik, var með í kvöld og skilaði sínu á takmörkuðum tíma. Deron Williams skoraði 24 stig og Carlos Boozer gerði 18 stig og tók 12 fráköst fyrir vængbrotið lið Jazz, sem er án Andrei Kirilenko og Mehmet Okur.
Fréttir
- Auglýsing -