Boston Celtics lögðu Cleveland Cavaliers örugglega í nótt og jöfnuðu metin í einvígi liðanna. Á meðan unnu Phoenix Suns fyrsta leikinn í rimmunni gegn SA Spurs.
Það var ekki að sjá að MVP styttan sem LeBron James fékk í fyrradag hafi verið að blása honum og samherjum hans kapp í brjóst, því að þeir voru rækilega yfirspilaðir af Boston Celtics í nótt.
Celtics tóku stjórnina í þriðja leikhluta þar sem Cavs, sem voru á heimavelli, skoruðu einungis 12 stig. Þrátt fyrir að leikurinn hafi jafnast í lokafjórðungnum var sigurinn aldrei í hættu og þeir grænu halda heim til Boston með óvæntan sigur í farteskinu.
Rajon Rondo var prímusmótorinn í liði Celtics þar sem hann gaf 19 stoðsendingar og jafnaði þannig liðsmet Bob Cousy í úrslitakeppni. Rondo fann þríeykið Garnett, Allen og Pierce um allan völl sem og Raheed Wallace sem kom sterkur inn af bekknum og gerði 17 stig.
James gerði 24 stig fyrir Cavs og var í raun sá eini sem var nærri því að ná sér á strik.
Steve Nash er með elstu leikmönnum deildarinnar, en sýndi það svo sannarlega ekki gegn Spurs í nótt. Hann gerði 33 stig, þar af 17 í fyrsta leikhluta, og bætti við 10 stoðsendingum.
Spurs luma þó einnig á nokkrum gömlum og góðum þar sem Manu Ginobili (27 stig), Tony Parker (26) og Tim Duncan (20) sáu til þess að leikurinn var spennandi allt til loka.
Spurs tóku síðustu rispu leiksins þegar þeir voru 14 stigum undir og gerðu 13 stig í röð og breyttu stöðunni í 94-93 þegar rúmar 4 mín voru eftir af leiknum.



