LA Lakers unnu góðan sigur á Utah Jazz í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar og hafa unnið báða leikina. Á meðan unnu Orlando Magic stórsigur á Atlanta Hawks í fyrsta leiknum í einvígi þeirra.
Kobe Bryant og félagar í Lakers lentu í vandræðum með Jazz í fyrsta leiknum, en voru með annan leikinn í hendi sér nær allan tímann. Þeir nýttu sér gríðarlegan mismun undir körfunum þar sem Pau Gasol, Andrew Bynum og Lamar Odom gengu berserksgang og hirtu fráköst, skoruðu auðveldar körfur í sókninni og vörðu haug af skotum í vörninni.
Þrátt fyrir það var sóknarleikur Lakers ekki upp á það besta og Paul Millsap hélt Jazz einnig á floti lengi vel með frábærri frammistöðu.
Mehmet Okur og Andrei Kirilenko eru fjarverandi vegna meiðsla og hefðu sannarlega getað gert gæfumuninn í þessu einvígi, en ef Lakers halda uppteknum hætti verður erfitt fyrir Jazz að standa í vegi þeirra.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan leik þar sem Magic gjörsamlega skúruðu gólfið með döprum Atlanta-mönnum sem, svo maður grípi í gamla tuggu, sáu aldrei til sólar í Orlando.
Leikurinn kláraðist í örðum og þriðja leikhluta og það er nær öruggt að ef Dwight Howard heldur sér fjarri villuvandræðum og Hawks hysja ekki upp um sig, verður þetta önnur auðveld viðureign fyrir Orlando.



