spot_img
HomeFréttir2010 stefnir í að verða magnað ár!

2010 stefnir í að verða magnað ár!

 
Hlynur Bæringsson hjá Snæfelli settist niður í kaffi og létt spjall við Karfan.is. Ásamt því að vinna Bikarmeistaratitilinn og Íslandsmeistaratitilinn unnu Snæfell einnig Reykjanes Cup Invitational áður en Iceland Express deildin fór af stað. Snæfell lenti í 6. sæti deildarinnar og urðu fyrsta liðið sem vinnur Íslandsmeistaratitilinn sem lendir svo neðarlega. Hlynur var valinn besti leikmaður Iceland Express deildarinnar, úrslitakeppninnar og besti varnarmaðurinn. Hlynur var með að meðaltali 20.1 stig, 14.2 fráköst, 3.5 stoðsendingar og 32.2 framlagsstig í leik fyrir Snæfell.
Hver voru markmið ykkar Snæfellinga fyrir tímabilið?
 
Framan af var ekkert komið neitt plan svona sameiginlegt innan liðsins en ekkert svona sem var eitthvað og við settumst ekkert niður með það. En eftir að Pálmi Freyr kom aftur eins og Jesú gangandi á vatni eina helgina og Martins Berkis kom þá var sett takmark á að vinna bara allt sem svona nokkuð ákveðið takmark svoleiðis.
 
Hvað lagðir þú upp með í þínum líkamlega þætti og vinnu sem skilað þessum árangri þínum í vetur?
 
Ég setti allt upp á annað stig og setti miklu meiri kraft í allt eins og margir en kannski eins og á tímabilinu á undan sem mér fannst vera þungt fyrir mig og fannst allt fara niður um mörg level, deildin og við svo misstum fjóra leikmenn og þjálfara og viðurkenni að ég pompaði bara niður og þetta var líka bara hrunið í þjóðfélaginu. En ég setti mér stærri markmið sumarið á eftir fyrir þetta tímabil og æfði mikið jafnvel tvisvar á dag, lyfti miklu betur og ákvað að vera í eins góðu formi og ég mögulega gat fyrir þetta tímabil.
 
Var það þá erfitt að þjálfa sjálfan sig á þar síðasta tímbili?
 
Það var bara ómögulegt en ég held að Siggi (Sigurður Þorvaldsson) sé sammála mér að við vorum ekkert góðir þjálfarar en við björguðum okkur og vorum kannski ekkert slæmir þannig held ég. En eins og hægt var þá var þetta ekki gott sérstaklega fyrir menn sem eru að spila c.a 35 mínútur hvor í leik, þá var vonlaust að gera þetta sæmilega og erfitt að þjálfa sjálfan sig undir svona kringumstæðum.
 

Hvaða áhrif hafa tveir Bikarmeistaratitlar og einn Íslandsmeistaratitill á komandi tíma og hefðir hjá Snæfelli?
 
Ég held að það hafi gríðalega góð áhrif að hafa tekið þetta skref. Það er svo mikilvægt fyrir svona litla klúbba. Það eru margir svona næstum því að ná þessu á hverju tímabili og eru eins og talað er um sterkir hverju sinni eins og liðin í öðru sæti og eitthvað neðar en það er bara eitt lið sem nær að vinna og það hafa bara verið þessi þrjú lið KR, Keflavík og Njarðvík sem hafa getað það ár eftir ár. Ég held að Snæfell fari svolítið upp úr þessum litla ungmennafélags klassa og yfir í stærri klassa. Það verður að einhverju leyti meiri krafa á árangur en verið hefur og þá til góðs og þá smitar það niður til krakkana í yngri flokkum sem hafa þá séð sitt lið verða meistarar.
 
Snæfell hefur verið svolítið litli bróðir úti á landi en þó verið í toppbaráttu síðustu ár mun það breytast núna eða verða þeir alltaf litlu landbyggðarmeistararnir?
 
Við höfum alltaf verið litli góði bróðir úti á landi sem allir halda með. Ég vona að umtalið breytist ekki miðað við það sem maður heyrir hjá öðru fólki sem segir mikið að fyrst mínir menn eru ekki með þá vona ég nú að þið takið þetta og þetta hefur oft verið þannig hjá okkur komandi frá litlu bæjarfélagi. Það á eitthvað eftir að breytast eftir að við unnum en það á eftir að koma í ljós bara miðað við hvernig menn bera sig. Ef menn eru með leiðindi og hroka þá breytist margt á móti þeim en við verðum alltaf litli góði gæinn úti á landi þó eitthvað breytist kannski í umfjöllun út af því að við erum meistarar.
 
Einhverjar breytingar sem þig langar að sjá í íslenskum körfubolta?
 
Ef við tölum um reglurnar þá má skella hérna inn 4×12 mínútna leiktíma og 6 villur. Fá fleiri inná í leikinn þar sem slatti af aukamínútum gæfi meira rúll á fleiri mönnum og gaman fyrir áhorfendur líka, ef þú ert að meina eitthvað í þá áttina þá væri ég til í það. Umgjörð leikja er á uppleið og mjög góð miðað við aðrar íþróttir. Sjáðu eins og stuðningsmenn KR sem byrjuðu á söngli og hoppi sem komu með annað inn í stúkuna til dæmis sem er mjög gaman af. Ef þetta væri hrein atvinnumannadeild þá væri umgjörðin kannski öðruvísi en er nú. Deildin hér á Íslandi er mun sterkari en menn halda og hafa margir erlendir leikmenn sagt það til dæmis. Þannig að heilt yfir er deildin bara mjög góð.
 
Talandi um íslenskan körfubolta, þá er útrás til Svíþjóðar í kortunum hjá þér!
 
Ég er búinn að skrifa undir við Sundsvall Dragons í Svíþjóð þar sem Jakob Sigurðarson er fyrir og verður næstu leiktíð. Það er nokkuð frágengið og er tveggja ára samningur með endurskoðunarávæði eftir ár þar sem ég get farið eitthvað annað í Evrópu en þó ekki til annars sænsks liðs. Fjölskyldan fer öll með mér og myndi ég ekki fara ef hún færi ekki með, ég er 27 ára og búinn að fá tilboð af og til en fannst eins og þetta væri eitthvað sem ég ætti að kíkja á. Það er um að gera að víkka sjóndeidarhringinn líka og prufa að búa annarstaðar og skoða heiminn ef maður fær tækifæri til en ég var ekkert að bíða eftir einhverju betra og svoleiðis og ákváðum við fjölskyldan að slá til og finnst mér maður eiga að gera þetta ef maður hefur tök á því.”
 
Verður það þá Snæfell aftur eftir útrásina?
 
Stykkishólmur er svo hérna áfram þegar maður kemur aftur þar sem ég á hús hérna og fjölskyldan hennar Unnar er hérna og vinir. Svo er kannski spurning hvernig er með nám sem ég hef alltaf ætlað mér að klára og verð kannski kominn langt þegar ég verð búinn og svo hvar vinirnir verða að spila, svo margt sem getur komið til.
 
Hvenær ferðu út?
 
Ágúst, september er áætlað að fara en ég var bara að skrifa undir svo að það á eftir að skoða það nákvæmlega.
 
Þú býrð á Silfurgötu en ætlar þú að beita þér fyrir að það komi Gullgata í Hólminn verðir þú í aðstöðu til?
 
Ég hef verið að lofa því undafarna daga alveg uppí ermina á mér og verð að minnsta kosti að viðra þá hugmynd ef ég hef tækifæri til en það eru kannski önnur mál sem eru ofar á lista en af hverju ætti ekki næsta gata í Stykkishólmi að geta heitið Gullgata?
 
Síðast þegar leikmaður tók hina gullnu þrennu sem er bikar, Íslandmeistari og besti leikmaður þá var árið 1976 og þú ekki fæddur?
 
Já það er skemmtilegt að vita en ég hefði haldið að Teitur Örlygsson eða Valur Ingimundar væru búnir að taka þetta fyrr þar sem þeir voru alltaf vinnandi og rosalega góðir en þetta er eitthvað sem ég vissi ekki og er alveg ótrúlegt að vita, það munaði litlu hjá Jóni Arnóri í fyrra þar sem vantaði bikarinn reyndar eftir tapið gegn Stjörnunni.
 
Nú ertu búinn að taka tvo stóra titla í vetur en að það eru tveir á leiðinni í viðbót í þínu lífi, tvíburar sem koma í heiminn von bráðar?
 
Jú það er rétt við erum alveg gríðalega spennt fjölskyldan eins og flestir væru í þessari aðstöðu og þeir eiga að láta sjá sig eftir svona tvær vikur og vona bara að allt gangi vel og beðið er með mikill eftirvæntingu eftir þeim. 2010 stefnir greinilega í að verða alveg magnað ár.
 
Við tökum undir það með Hlyni Bæringssyni að 2010 sé að stefna í magnað ár. Þökkum gott spjall við Hlyn, sem hefði hæglega með harðfylgi getað orðið góð mastersritgerð, óskum við honum og stækkandi fjölskyldu hans góðs gengis á nýrri grundu og verður Karfan.is með puttana á púlsinum sem fyrr þegar dregur til tíðinda frá Svíþjóð.
 
Viðtal: Símon B. Hjaltalín.
Ljósmyndir: Þorsteinn Eyþórsson

Fréttir
- Auglýsing -