spot_img
HomeFréttirLeitum að sterkum einstaklingum fyrir meistaraflokkana

Leitum að sterkum einstaklingum fyrir meistaraflokkana

 
Karla- og kvennalið KR í Iceland Express deildunum eru enn án þjálfara en Böðvar Guðjónsson formaður KKD KR sagði í samtali við Karfan.is að félagið leitað eftir sterkum einstaklingum í störfin.
,,Það er lítið að frétta úr okkar herbúðum en stjórn er að skoða ýmsa möguleika og velta fyrir okkur hverskonar heildarlausn væri farsælust fyrir klúbbinn. Það er ljóst að við leitum að sterkum einstaklingum fyrir meistaraflokkana með góðan bakgrunn og þekkingu á þeim fræðum sem að körfuboltanum snúa. Einstaklinga sem að falla inn í kúltúr félagsins og gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð að starfa fyrir KR,“ sagði Böðvar en Páll Kolbeinsson hætti með karlalið félagsins að loknu tímabili og slíkt hið sama gerði Benedikt Guðmundsson þjálfari kvennaliðsins sem nú hefur tekið við Þór Þorlákshöfn í 1. deild karla.
 
Böðvar sagði stjórn KKD KR leggja mikla áherslu á tengingu á milli allra flokka félagsins:
 
,,Það er einkar mikilvægt að tengja saman yngriflokka og afreksstarf félagins þ.e. að hlúa vel að yngriflokkunum þar sem allir eiga að fá að njóta sín og síðan afreksstarfið þar sem við hvetjum yngriflokka iðkendur að sækja leiki meistaraflokkana til að upplifa þá miklu stemmningu sem þar er á ferð. Það hvetur okkar iðkendur til að leggja sig fram með þann draum að leika á einhverjum tímapunkti með meistaraflokkum félagsins. Þessvegna þurfa þjálfarar meistaraflokkana að þekkja innviði yngriflokkana þannig að þeir hafi þekkingu á hvað KR snýst um þ.e. heildarsýn á starfssemi félagsins sem að kemur öllum til góða sem koma að starfi félagsins þ.e. iðkendum, foreldrum, afreksfólki meistaraflokkana, þjálfurum og öllum þeim góðu KR-ingum sem vilja veg félagsins sem mestan.“
Ljósmynd/ Kvennalið KR varð Íslandsmeistari á nýlokinni leiktíð eftir sigur í oddaleik gegn Hamri.
 
Fréttir
- Auglýsing -