LA Lakers og Orlando Magic eru komnir með annan fótinn í þriðju umferð úrslitakeppni NBA eftir sigra í nótt. Lakers lögðu Utah Jazz í spennandi leik á meðan Magic rústuðu Hawks á nýjan leik. Bæði liðin leiða 3-0 í sinni rimmu.
Lakers hafa nýtt yfirburði sína undir körfunum til að sigra í fyrstu tveimur leikjunum gegn Utah, en annað var uppi á teningnum í nótt. Jazz héldu stóru mönnunum í skefjum, en við það losnaði um fyrir utan þar sem Kobe Bryant (35 stig), Derek Fisher (20) og Ron Artest (20) voru stórhættulegir.
Leikurinn var engu að síður gríðarlega spennandi þar sem Lakers fóru með þriggja stiga forskot inn í fjórða leikhluta. Þar skiptust liðin 12 sinnum á því að leiða, en Kobe og Fisher settu hvor sinn þrist á síðustu mínútunni og Kobe bætti sjálfur við tveimur vítum sem kom þeim þremur stigum yfir þegar 8 sek voru eftir. Deron Williams, sem var með 28 stig fyrir Jazz í leiknum, óð því næst upp að körfunni, fékk tvö víti og setti þau.
Kyle Korver stal svo innkasti Lakers og bað um leikhlé þegar 4 sek voru til leiksloka. Williams klikkaði úr lokaskotinu, en nýliðinn Wesley Matthews hafði tíma til að tippa boltanum að körfunni, án þess að hitta þó, og Lakers eru nær öruggir um að komast í úrslit Vesturdeildarinnar þar sem ekkert lið í sögu NBA hefur unnið rimmu eftir að lenda 3-0 undir.
Ef Atlanta Hawks höfðu trúað því að heimavöllurinn yrði sérstakt vopn fyrir þá gegn Orlando Magic fengu þeir sönnum um hið gagnstæða í nótt þar sem Magic tætti þá í sig. Þetta var versta tap Atlanta í úrslitakeppni í sögu liðsins og er fátt sem bendir til þess að þeir fari að hysja upp um sig, eða þess þó síður að Orlando fari að slá slöku við.
Magic eru að spila ótrúlega góðan bolta þar sem allir leikmenn eru að leggja sitt af mörkum, dregnir áfram af Dwight Howard, Vince Carter og Jameer Nelson.
Leikurinn í nótt var í raun búinn í þriðja leikhluta og áhorfendur fóru að streyma út í upphafi þess fjórða.



