Regal Barcelona eru Evrópumeistarar eftir öruggan 86-68 sigur á Olympiacos í úrslitum Meistaradeildarinnar (Euroleague). Þetta er í annað sinn í sögu félagsins sem Barcelona verður meistari en í kvöld tóku þeir forystuna snemma og höfðu að lokum öruggan og verðskuldaðan sigur. Juan Carlos Navarro var valinn besti maður leiksins með 21 stig og 5 fráköst í liði Barca.
Eftir fyrsta leikhluta var staðan 28-19 Barcelona í vil og í hálfleik leiddu Börsungar 47-36 þar sem Juan Carlos Navarro var kominn með 12 stig hjá Barca en Bourosis var með 9 stig í liði Grikkjanna.
Barcelona hélt forystunni áfram í síðari hálfleik og með sterkri vörn tókst Grikkjunum aldrei að ógna forystunni að ráði. Lokatölur reyndust svo 86-68 fyrir Barcelona og Navarro stigahæstur með 21 stig og 5 fráköst. Josh Childress gerði 15 stig og tók 6 fráköst í liði Olympiacos sem einfaldlega voru litlu strákarnir í dag gegn hreyfanlegu og vel spilandi liði Börsunga.



