Lokahóf Snæfells fór fram fyrir troðfullu húsi á Hótel Stykkishólmi á dögunum. Mikið var um dýrðir enda hefur árangur Snæfellinga verið frábær í vetur. Kvennaliðið náði mjög góðum árangri í vetur en þær náðu í úrslitakeppni IE deildarinnar en duttu naumlega út fyrir Keflavík í fyrstu umferð. Stúlknaflokkur liðsins náði einnig mjög góðum árangri en kjarninn af þeim flokki spilar einnig með meistaraflokknum. Sameinaður drengjaflokkur Snæfells og Skallagríms náði mjög góðum árangri í vetur, þeir urðu bikarmeistarar og töpuðu svo naumlega í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Karlalið Snæfells vann síðan bikar og Íslandsmeistaratitil eins og alþjóð veit.
Eftir ræður frá stjórnaformönnum voru veitt verðlaun fyrir ástundun og þátttöku í yngri flokkum. Þar á eftir var komið að verðlaunaafhendingu hjá meistaraflokki kvenna. Efnilegasti leikmaðurinn var valinn Hrafnhildur Sævarsdóttir og besti leikmaður liðsins var valin Gunnhildur Gunnarsdóttir. Hjá körlunum var Egill Egilsson valinn efnilegasti leikmaðurinn og Hlynur Bæringsson var valinn besti leikmaðurinn.
Texti og myndir: Þorsteinn Eyþórsson




