LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers eru komnir fram á hengiflugið eftir stórt tap gegn Boston Celtics i nótt, 88-120. Celtics, sem voru fyrirfram ekki taldir líklegir til mikilla afreka gegn Cavs, leiða nú einvígið 3-2 og dugar einn sigur á heimavelli til að komast í úrslit Austurdeildarinnar gegn Orlando Magic.
Það er eitt orð sem lýsir stöðunni fyrir Cleveland eftir þennan versta ósigur í úrslitakeppni í sögu liðsins… niðurlæging. (sjá tölfræði og video)
Cavs mættu einfaldlega ekki til leiks í þessum leik, og allra síst LeBron James, sem skoraði 15 stig og hitti bara úr 3 skotum utan af velli. Í raun eiga James og félagar enn eftir að sýna fram á að þeir eigi erindi í Orlando eða LA Lakers ef þeir komast á annað borð framhjá Celtics.
Þeir grænklæddu hafa hins vegar gengið í gegnum endurnýjun lífdaga upp á síðkastið eftir brokkandi gengi í deildarkeppninni þar sem meiðsli lykilmanna settu strik í reikninginn. Rajon Rondo hefur stigið upp sem leiðtogi liðsins með hverjum stórleiknum á fætur öðrum og létt hluta af ábyrgðinni af herðum „Big Three“, Kevin Garnett, Paul Pierce og Ray Allen.
Leikurinn í nótt byrjaði ekki illa hjá Cavs sem leiddu eftir fyrsta fjórðung, en eftir það fór strax að fjara undan þeim. Það sem eftir lifði leiks var flugeldasýning hjá Celtics, en guð má vita hvað Cavs þóttust vera að sýna. Enginn í þeirra liði tók af skarið nema gamli trukkurinn Shaquille O‘Neal, sem var stigahæstur þeirra með 21 stig, enda var púað hressilega á þá í leik leiks.
Kaldhæðni örlaganna er að þetta gæti hafa verið síðasti heimaleikur James á þessum velli, því tap í Boston Garden í næsta leik þýðir að hann er kominn í sumarfrí með lausan samning.
Í vetur hefur fátt bent til annars en að hann hyggðist vera áfram hjá Cavs þar sem þeir voru með gott lið sem gæti unnið meistaratitla, en ef þetta er uppskeran gæti hann farið að líta frekar í kringum sig, og þá sérstaklega til New York þar sem Knicks bíða í ofvæni eftir sumrinu, og jafnvel til New Jersey, sem flytur í Stóra Eplið árið 2012.
James tók enga persónulega ábyrgð á þessu tapi í viðtölum eftir leikinn, en sagði að það væri skýrt í hans huga að þeir þyrftu að gera betur.



