U 16 ára landslið Íslands var rétt í þessu að skella Norðmönnum 88-62 í karlaflokki á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Martin Hermannsson hitnaði og gerði 21 stig og 15 af þeim komu frá þrigggja stiga línunni. Íslenska liðið var einbeitt í vel flestum sínum aðgerðum og uppskáru verðskuldaðan sigur. Liðið mætir svo Finnum síðar í dag.
Martin Hermannsson gerði fyrstu stig 16 ára liðsins á Norðurlandamótinu með þriggja stiga körfu og þær áttu eftir að verða fleiri. Fyrstu fimm skotin í leiknum hjá Íslandi voru þriggja stiga skot, aðeins eitt rataði rétta leið. Norðmenn voru því fljótir í svæðisvörn en þristarnir fóru fljótt að detta og Martin Hermannsson smellti niður sínum þriðja og breytti stöðunni í 16-6. Íslenska liðið var sprækara í upphafi leiks og leiddi 20-11 að loknum fyrsta leikhluta.
Dagur Sturluson kom Íslandi í 27-17 með þriggja stiga körfu en hann kom inn í íslenska liðið seint í fyrsta leikhluta og byrjaði inná í öðrum leikhluta og kom með mikinn kraft inn í leik liðsins. Dagur skellti svo niður öðrum þrist í næstu sókn og staðan orðin 30-19 Íslandi í vil. Norðmenn bitu annað slagið frá sér en Íslendingar leiddu 40-28 í hálfleik.
Martin Hermannsson var kominn með 17 stig í hálfleiknum þar sem hann setti niður 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik. Stefán Karel Torfason frákastaði vel í íslenska liðinu í fyrri hálfleik með 7 fráköst og Dagur Sturluson var með 8 stig.
¨
Dagur Sturluson hélt áfram að leika af krafti í síðari hálfleik og opnaði með þriggja stiga körfu sem breytti stöðunni í 43-28 Íslandi í vil. Íslendingar voru algerlega einráðir á vellinum fyrstu mínúturnar í þriðja leikhluta og kláruðu leikinn á þessum mínútum.
Vörn Íslands var til mikillar fyrirmyndar og sáu Norðmenn vart til sólar. Ísland hélt áfram að bomba niður þristum og einn slíkur kom við lokaflaut leikhlutans en þar var Oddur Kristjánsson að verki og Ísland leiddi 65-40 fyrir loka fjórðunginn.
Norðmenn hófu fjórða leikhluta á því að saxa forystuna aðeins niður en íslensku drengirnir létu ekki hrinda sér frá sigrinum og kláruðu dæmið 88-62 þar sem Elvar Már Friðriksson skellti niður flautuþrist í leikslok. Flottur leikur hjá íslenska liðinu og sanngjarn sigur enda léku strákarnir við hvurn sinn fingur í dag. Þeir mæta svo Finnum síðar í dag eða kl. 16:30 að íslenskum tíma.
Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 21 stig og 6 fráköst en hann setti 5 af 8 þristum sínum í leiknum. Sigurður Dagur Sturluson gerði 16 stig og kom með mikla baráttu af bekknum inn í íslenska liðið og þeir Valur Orri Valsson, Matthías Sigurðarson og Oddur Rúnar Kristjánsson voru allir með 9 stig. Stefán Karel Torfason lauk svo leik með 11 fráköst og 4 stig.
Ljósmynd/ Emil Karel Einarsson skorar hér 2 af 8 stigum sínum gegn Norðmönnum.




