spot_img
HomeFréttirSvíar stungu af á lokasprettinum

Svíar stungu af á lokasprettinum

 
Íslenska U18 ára landslið kvenna var enda við að fá skell á Norðurlandamótinu í Svíþjóð en liðið lá 79-44 gegn sterku liði Svía. Heimakonur settu í fluggír í fjórða leikhluta sem þær unnu 26-5. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 20 stig og tók 4 fráköst fyrir íslenska liðið sem átti fínar rispur í leiknum en máttu sín lítils gegn Svíum á lokasprettinum. U 18 ára lið kvenna deilir nú þeim vandræðum með karlaliðinu að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum á mótinu og því fátt annað en sigrar sem duga úr þessu ætli liðið sér að spila til einhverra verðlauna.
Íslensku U 18 ára stelpurnar voru hvergi bangnar og mættu með pressu á sænska liðið sem þykir eitt það sigurstranglegasta á mótinu. Óhætt er að segja að íslenska vörnin hafi komið heimakonum í opna skjöldu og lítið var skorað í upphafi leiks.
 
Svíar komust í 7-2 áður en Heiðrún Kristmundsdóttir minnkaði muninn í 7-5 með þriggja stiga körfu. Guðbjörg Sverrisdóttir var að ógna vel í íslenska liðinu, Svíar voru ávallt í vandræðum þegar Guðbjörg sótti í teiginn og þegar henni mætti tvídekkun var hún dugleg að finna þann leikmann sem losnaði og var í betri skotstöðu. Svíar höfðu þó undirtökin og leiddu 16-12 að loknum fyrsta leikhluta og hin fínasta byrjun hjá íslensku stelpunum.
 
Ísland náði að minnka muninn í 18-16 í upphafi annars leikhluta en þá kom 8-0 rispa hjá Svíum sem þó voru enn í vandræðum með Guðbjörgu. Þegar líða tók á annan leikhluta fór íslenska vörnin að leka nokkuð myndarlega og bakverðir liðsins höfðu ekki nægilegar gætur á boltanum er þeir stýrðu íslenska sóknarleiknum og því leiddu Svíar 37-22 í hálfleik þar sem heimakonur unnu annan leikhluta 21-10. Guðbjörg Sverrisdóttir var með 9 stig og 3 fráköst í íslenska liðinu þegar blásið var til hálfleiks.
 
Eins og fyrr í leiknum var Ísland betri aðilinn í upphafi þriðja leikhluta en Svíar komu ávallt sterkar til baka og svöruðu af krafti öllum rispum sem íslenska liðið tók og smátt og smátt tókst þeim að kreista síðustu blóðdropana úr íslenska liðinu. Í stöðunni 50-31 gerði Ísland 8 stig í röð og minnkuðu muninn í 50-39 en Svíar lokuðu leikhlutanum með þrist og leiddu 53-39 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Ísland vann leikhlutann 17-16 en heimakonur voru með þægilega forystu fyrir lokasprettinn.
 
Eftir um fimm mínútna leik í fjórða leikhluta var alveg ljóst að Svíar færu með sigur af hólmi í leiknum. Svíar léku fína vörn og hittu mjög vel úr þriggja stiga skotum sínum og stoppuðu í götin sín í vörninni og slógu þannig öll spil úr höndum Íslands. Lokatölur reyndust 79-44 Svíþjóð í vil sem sýndu enga miskunn í fjórða leikhluta og keyrðu þar yfir íslenska liðið 26-5. Íslenska liðið sýndir oft góða takta en vantaði þrekið til að standa í hárinu á Svíþjóð í fullar 40 mínútur.
 
Guðbjörg Sverrisdóttir dró vagn íslenska liðsins í dag með 20 stig og 4 fráköst og Heiðrún Kristmundsdóttir bætti við 7 stigum. Þá átti Sara Mjöll Magnúsdóttir ágætan dag með 6 stig og 8 fráköst.
 
Ljósmynd/ Sigrún Albertsdóttir sækir að sænsku körfunni en hún gerði 2 stig í leiknum.  
 
Fréttir
- Auglýsing -