spot_img
HomeFréttirCeltics lögðu Cavs - Martröð LeBrons

Celtics lögðu Cavs – Martröð LeBrons

LeBron James og Cleveland Cavaliers eru komnir í sumarfrí eftir tap gegn öflugum Boston-mönnum í nótt, 94-85. Framtíð James í heimaborg sinni er í lausu lofti, en Celtics eru að elta enn einn meistaratitilinn.
Cavs vissu mæta vel hvað var í húfi fyrir þennan leik. Ekki bara enn eitt tímabilið þar sem velgengni í deildarkeppninni varð a vonbrigðum í úrslitakeppni, heldur gat framtíð félagsins legið í úrslitum næturinnar.
 
Þrátt fyrir stórleik James, sem var með 27 stig, 19 fráköst og 10 stoðsendingar, náðu Cavs aldrei tökum á leiknum og hinir leikreyndu Celtics, undir forystu Kevins Garnett (22 stig og 12 fráköst) og hins magnaða Rajon Rondo (21 stig, 12 stoðsendingar), áttu lokakaflann með húð og hári og lönduðu sigri og sæti í úrslitum Austurdeildarinnar gegn Orlando Magic.
 
Aðeins einn annar leikmaður Cleveland, Mo Williams, var að skila sínu og það var aðeins í fyrri hálfleik. Shaquille O‘Neal, Anthony Parker og Antawn Jamison gerðu lítið gagn og liðið sem Danny Ferry og Mike Brown hafa byggt upp utan um James misheppnaðist gjörsamlega ætlunarverk sitt.
 
LeBron gat ekki dulið vonbrigði sín með úrslitin.
 
„Sú staðreynd að tímabilið okkar er búið kemur mér mjög á óvart. Vinur minn sagði mér að maður þurfi að upplifa margar martraðir áður en draumar manns rætast. Það er einmitt það sem er í gangi hjá mér núna.“
 
Þetta gæti hafa verið síðasti leikur LeBron James fyrir sitt heimalið, en hann ólst upp og býr enn í Akron, rétt fyrir utan Cleveland.
 
Það er ekki ofsagt að komandi sumar sé sumar LeBrons, því að hann er með lausan samning og annað hvert lið í deildinni hefur búið sig undir að bjóða í hann og hina fjölmörgu stjörnuleikmenn sem verða í hans sporum í sumar.
 
Hingað til hefur þótt næsta víst að hann muni semja til skamms tíma við Cleveland, e.t.v. til þriggja ára, en nú þegar ljóst er að hann mun þurfa að bíða enn lengur eftir titli, og jafnvel byggja upp nýtt lið í Cleveland, er honum vorkunn að líta í kringum sig.
 
Helstu vonbiðlarnir eru að sjálfsögðu NY Knicks sem hafa ekki hreyft sig nema með tilliti til þess hvernig það gæti lokkað James í Stóra Eplið, en Miami Heat með Dwayne Wade fyrir á fleti gæti einnig verið ákjósanlegur kostur.
 
Ákvarðanir hans ráðast ekki síst af peningahliðinni þar sem New York er mun betri vettvangur til að kynna sig fyrir umheiminum að ógleymdum hagstæðum sköttum í Florídafylki, sem gæti verið eitt helsta tromp Miami.
 
Það kemur hins vegar í ljós þegar líða tekur á sumarið, en það er þó ljóst að enn eitt árið er James án titils þannig að allt tal um „Kónginn“ og „Hinn Útvalda“ er enn bara að finna á hans eigin húðflúrum.
 
Þó engin spurning sé um að hann sé hæfileikaríkasti leikmaður deildarinnar eru goðsagnirnar byggðar á meistarahringjum, en ekki einstaklingsverðlaunum.

ÞJ


Mynd/CP – Bostonbúum leiddist ekki að stríða James í nótt.
Fréttir
- Auglýsing -