spot_img
HomeFréttir16 ára liðið lagði heimamenn með vörnina að vopni

16 ára liðið lagði heimamenn með vörnina að vopni

 
Ísland er einum sigri frá því að komast í úrslitaleikinn um Norðurlandameistaratitilinn í flokki 16 ára pilta. Ísland var rétt í þessu að leggja heimamenn í Svíþjóð 64-68 í spennandi leik þar sem íslenska liðið stjórnaði ferðinni. Martin Hermannsson datt inn á enn einn skotleikinn hjá sér, pilturinn setti 20 stig í leiknum og gaf 3 stoðsendingar en íslenska liðið lék fantagóðavörn og uppskar verðskuldaðan sigur. Nú er staðan þannig að Ísland má tapa með 5 stigum eða minna á morgun gegn Dönum en Svíar hafa samt tryggt sér sæti í úrslitaleiknum. 5 stiga tap eða sigur á morgun tryggir Íslandi sæti í úrslitaleiknum gegn Svíþjóð á sunnudag.
Heimamenn í Svíþjóð gerðu sjö fyrstu stig leiksins áður en Martin Hermannsson sagði hingað og ekki lengra. Martin komst inn í sendingu, brunaði upp völlinn og lagði boltann í netið til að gera fyrstu stig Íslands í leiknum. Martin og Maciej Baginski voru frískir í íslenska liðinu í upphafi leiks og Íslendingum tókst að minnka muninn í 9-8.
 
Svíar voru svotil einráðir í fráköstunum í upphafsleikhlutanum og lifðu vel á því að fá tvo til þrjá sénsa í hverri sókn svo þeir leiddu 18-12 að loknum fyrsta leikhluta. Að sama skapi voru skot Íslendinga ekki að vilja niður og þeir bláklæddu máttu vera töluvert grimmari.
 
Eftir þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta hafði aðeins eitt stig verið skorað og staðan 18-13. Martin Hermannsson tók þá til sinna ráða og kom Íslandi í 18-21 með tveimur þristum í röð og þá kom Þorgrímur Kári Emilsson með jákvæða strauma undir íslensku körfuna og lét vel til sín taka á þeim tæpu sjö mínútum sem hann lék í fyrri hálfleik.
 
Vörn Íslands var skotheld í heilar sex mínútur í öðrum leikhluta og þegar Svíar náðu loks að skora minnkuðu þeir muninn í 20-22 en þá kom strax 8-0 kafli frá Íslendingum og staðan 22-30 Íslandi í vil eftir að Matthías Orri Sigurðarson braust í gegn, skoraði og fékk villu að auki.
 
Flottur kafli hjá íslenska liðinu en Svíar áttu lokaorðin í fyrri hálfleik og náðu að minnka muninn í 27-32 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Í byrjun leiks leit út fyrir einstefnu Svía í frákastabaráttunni en Íslendingar hertu róðurinn og bæði lið með 19 fráköst í hálfleik. Martin Hermannsson var með 15 stig í fyrri hálfleik, þar af 3/5 í þristum. Matthías Orri Sigurðarson kom með flotta baráttu af bekknum, gerði 6 stig og stal 3 boltum í fyrri hálfleik.
 
Martin Hermannsson opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og jók miuninn í 29-35 og skömmu síðar fiskaði Maciej Baginski ruðning á Svía, hélt yfir í sókn og smellti niður þrist. Íslenska vörnin var áfram til fyrirmyndar og var munurinn 41-51 að loknum þriðja leikhluta.
 
Valur Orri Valsson breytti stöðunni í 41-54 í upphafi fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og góð barátta liðsins hélt áfram. Hægt og bítandi sigu heimamenn nærri og söxuðu forskot Íslands niður í 1 stig, 61-62 þegar tæpar 2 mínútur voru til leiksloka.
 
Valur Orri Valsson breytti svo stöðunni í 63-66 Íslandi í vil þegar 35 sekúndur voru til leiksloka. Svíar fengu víti á hinum enda vallarins og minnkuðu muninn í 64-66 en náðu sóknarfrákastinu, heimamenn voru óánægðir að fá ekki villu undir lokin þar sem íslenska vörnin náði boltanum og sigurinn í höfn. Valur Orri fór á vítalínuna um leið og leiktíminn var úti og lokatölur reyndust 64-68 Íslandi í vil.
 
Íslenska liðið á því möguleika á að leika til úrslita gegn Svíþjóð á sunnudag að því gefnu að sigur eða 5 stiga tap og minna náist á morgun gegn sterku liði Dana. Martin Hermannsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu í dag með 20 stig og 3 stoðsendingar, Valur Orri Valsson kom næstur með 13 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og Maciej Baginski átti góðar rispur með 12 stig og 8 fráköst. Þá voru Matthías Orri Sigurðarson og Stefán Karel Torfason einnig sprækir og sterk íslensk liðsheild sem lagði grunnin að góðum og mikilvægum sigri.
 
Ljósmynd/ Kristinn G. Pálsson Martin Hermannsson gerir hér 2 af 20 stigum sínum í Solnahallen í dag.

[email protected]
Fréttir
- Auglýsing -