Meistarar LA Lakers byrjuðu úrslit Vesturdeildarinnar með krafti þar sem þeir rústuðu Phoenix Suns, 128-107, í nótt. Kobe Bryant var með 40 stig í leiknum.
Lakers voru við stjórnvölinn allt frá upphafi leiks þar sem Kobe var sjóðheitur bæði utan af velli og í gegnumbrotum og Suns áttu ekkert svar. Í aðdraganda rimmunnar var mikið talað um hvernig hraði Suns gæti ollið Lakers vandræðum, en þvert á móti voru það Lakers sem keyrðu upp hraðann þegar þeir vildu og stjórnuðu í raun hraða leiksins.
Lakers nýttu sér einnig hæðarmuninn þar sem þeir voru einráðir í fráköstunum, en enginn var sterkari þar en Lamar Odom sem var með 19 stig og 19 fráköst í leiknum og vann þar með upp fyrir Andrew Bynum sem gat lítið beitt sér sökum hnémeiðsla.
Miðherjinn ungi Robin Lopez kom aftur í lið Suns eftir meiðsli og stóð sig ágætlega en Odom og Pau Gasol áttu svæðið undir körfunum með húð og hári.
Kobe er sjálfur að stríða við margskonar minniháttar meiðsli, m.a. í ökkla, fingri og hné, en hann fékk verðskuldaða hvild fyrir þetta einvígi sem virðist sannarlega vera að skila sér.
Hjá Suns var Amare Stoudemire með 23 stig og Steve Nash með 13 stig og 13 stoðsendingar.



