Nú styttist í HM 2010 í Tyrklandi og leikmannahópar landanna farnir að mótast. Gestgjafar mótsins Tyrkir eiga marga snjalla leikmenn og meðal helstu leikmanna þeirra eru þeir Hedo Turkoglu og Mehmet Okur sem leika með Toronto og Utah í NBA-deildinni.
Hedo Turkoglu er kominn til Tyrklands þar sem hann er farinn að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið. Til að byrja með verður hann í fríi með fjölskyldunni en svo fer undirbúningurinn af stað fyrir HM.
Á meðan er miðherjinn snjalli Mehmet Okur að jafna sig eftir aðgerð en hann verður frá vegna meiðsla fram á haustið. Missir hann því af heimsmeistaramótinu sem verður í hans heimalandi.
Turkoglu ætlar sér stóra hluti í sumar. ,,Ég stefni á að æfa vel og vera í góðu formi. Ég trúi því að þetta sumar verði mikilvægt fyrir liðið og svo að sjálfsögðu fyrir þjóðina,” sagði fyrirliði heimamanna.
Miklar væntingar eru í Tyrklandi vegna heimsmeistaramótsins og um gengi heimamanna. ,,Það verða allar miklar kröfur til okkar þegar kemur að HM. Vonandi náum við að standa undir væntingum þjóðarinnar.”
Nú er stutt í fyrstu leiki HM en Tyrkir hefja leik á fyrsta leikdegi laugardaginn 28. ágúst þegar þeir taka á móti Fílabeinsströndinni í Ankara.



