Phoenix Suns minnkaði muninn gegn LA Lakers þegar þeir unnu þriðja leikinn í úrslitum vesturdeildarinnar, 118-109, og er staðan nú 2-1. Amare Stoudemire átti stórleik fyrir Suns þar sem hann skoraði 42 stig og tók 11 fráköst.
Eftir tvo leiki í algeru ráðaleysi gagnvart snilldarleik Kobe Bryant og Lakers tóku Suns sig saman í andlitinu á heimavelli. Þeir sóttu hart á körfuna og sóttu villur hvað eftir annað, ekki síst Stoudemire sem fékk sjálfur 18 vítaskot á meðan allt Lakers-liðið fékk 20.
Hann fékk einnig hjálp þar sem miðherjinn Robin Lopez, tvíburabróðir Brook Lopez hjá NJ Nets, var með 20 stig, Jason Richardson var með 19 og Steve Nash skoraði 17 og gaf 15 stoðsendingar.
Leikurinn var jafn og spennandi þar sem Phoenix leiddu lengst af, en Lakers voru aldrei langt undan. Þeir komust meira að segja yfir snemma í fjórða leikhluta, en Suns voru seigari á lokasprettinum.
Kobe stóð fyrir sínu þar sem hann skoraði 36 stig, tók 9 fráköst og gaf 11 stoðsendingar og Pau Gasol var með 23, en félagar þeirra voru ekki að standa sig nógu vel. Andrew Bynum spilaði varla neitt vegna meiðsla og Lamar Odom var aðeins með 10 stig.



