spot_img
HomeFréttirMagic ekki tilbúnir í sumarfrí - Unnu Boston í framlengingu

Magic ekki tilbúnir í sumarfrí – Unnu Boston í framlengingu

Orlando Magic frestuðu sumarfríi um sinn þegar þeir lögðu Boston Celtics í fjórða leik liðanna, 92-96, í framlengdum leik í Boston Garden í nótt. Staðan í einvíginu er því 3-1 Boston í vil og nú fer serían aftur til Orlando þar sem næsti leikur er annað kvöld.
 
Celtics þurftu að ganga frá sópunum sínum því að Orlando mættu loks tilbúnir til leiks eftir þrjú hrikaleg töp þar sem Boston sýndu miklu meiri hörku og sigurvilja. Gestirnir tóku frumkvæðið og héldu því lengst af. Þeir voru m.a. með sjö stiga forskot, 78-85, á lokakafla leiksins, en Paul Pierce og Ray Allen jöfnuðu leikinn og knúðu fram framlengingu.
 
Þar byrjuðu Magic betur, þar sem Jameer Nelson setti tvo þrista og Howard bætti við fjórum stigum. Staðan var 92-96 þegar Kevin Garnett sendi slakan bolta yfir höfuðið á Pierce og upp í stúku, og þó að Pierce fengi tvo skot til viðbótar áður en leiktíminn rann út náði hann ekki að nýta sér þau færi og Orlando fagnaði langþráðum sigri.
 
Howard lifnaði loks við í þessum leik og var með 32 stig og 16 fráköst. Nelson var með 23 og Rashard Lewis með 13. Vince Carter var vita gagnslaus í þessum leik þar sem hann gerði 3 stig á hálftíma og er ekki beint að hrista af sér slyðruorðið sem af honum fer í mikilvægum leikjum.
 
Pierce átti stórleik fyrir Boston þar sem hann gerði 32 stig og tók 11 fráköst. Allen var með 22 stig og Garnett gerði 14. Þeir voru í raun þeir einu sem stóðu fyrir sínu í liðinu því Rajon Rondo, sem hefur verið einn allra besti leikmaðurinn í þessari úrslitakeppni var bara með níu stig og var langt frá sínu besta.
 
Boston eru enn mun líklegri til að klára þetta einvígi, því að ekkert lið í sögu NBA hefur komið til baka og unnið seríu eftir að hafa lent undir 3-0. Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, var þó ekki of svartsýnn.
 
„Einhvern tíma á einhver eftir að vinna eftir að hafa lent 3-0 undir. Það eina sem ég vissi er að maður þarf að vinna leik 4. Það var ekki flókið. Við urðum að vinna leik 4.“
Fréttir
- Auglýsing -