Eftir að úrslitaleikjunum á Norðurlandamóti unglinga í Solna lauk tóku við úrslitaleikir á Bravo Cup en þeir fóru, rétt eins og Norðurlandamótið, fram í Solnahallen. Þegar Norðurlandaþjóðirnar höfðu yfirgefið húsið með liðin sín sátu örfáir eftir og þeirra á meðal voru þjálfararnir Einar Árni Jóhannsson og Ingi Þór Steinþórsson en þeir ætluðu sér að heilsa upp á Darra Loga Skúlason.
Darri er fæddur árið 1995 og er uppalinn í Stjörnunni en hann fluttist til Svíþjóðar með foreldrum sínum og býr fjölskyldan í Solna þar sem Darri leikur með yngri flokkum félagsins, Helgi Már Magnússon er því ekki eini íslenski leikmaður Solna Vikings.
,,Darri var í 22 manna landsliðshóp fyrir U-15 ára landsliðið og hafði ég ekki tök á að sjá hann fyrr en þarna. Strákurinn er að spila með Solna sem unnu mótið en hlutverk hans er að koma af varamannabekknum og er hann að bæta sig sem leikmaður. Darri er ekki að þessu sinni í 12 manna hópnum hjá Íslandi sem heldur til Danmerkur og keppir helgina 11-13 júní. Darri er áfram í æfingahóp sem mun æfa fyrir NM að ári í Solna,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson sem heilsaði upp á Darra í Solnahallen að loknu Norðurlandamóti.
Ljósmynd/ Ingi Þór og Darri í Solnahallen nokkrum mínútum áður en Solna Vikings léku til úrslita á Bravo Cup en Solna vann þar öruggan sigur.



