spot_img
HomeFréttirArtest hetja Lakers - Tryggði sigurinn með flautukörfu

Artest hetja Lakers – Tryggði sigurinn með flautukörfu

Ron Artest tryggði LA Lakers sigur í fimmta leiknum gegn Phoenix Suns, 103-101, með skoti af stuttu færi um leið og lokaflautið gall. Lakers leiða nú 3-2 og geta tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri í Phoenix annað kvöld.
 
Eftir að Lakers höfðu byggt upp 18 stiga forskot komst hinn síungi Steve Nash á flug, en hann var með 29 stig og 11 stoðsendingar í leiknum. Suns minnkuðu muninn jafnt og þétt þar til Jason Richardson jafnaði loks leikinn þegar 3,5 sek voru eftir, með sérstöku 3ja stiga skoti sem fór í spjaldið og ofan í.
 
Lakers fóru í sókn og leituðu að sjálfsögðu til Kobe Bryant sem tók 3ja stiga skot sem var of stutt. Artest, sem hafði átt dapran leik fram að þessu, dúkkaði þá óvænt upp undir körfunni og klambraði boltanum ofan í um leið og blásið var til leiksloka.
 
Þetta var önnur karfa Artests í leiknum en nokkrum mínútum fyrr hafi hann klikkað á tveimur galopnum þristum í röð. Fjögur stig, en maður leiksins fyrir Lakers.
 
Liðsfélagar hans áttu flestir góðan leik þar sem Kobe Bryant var með 30 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar, Derek Fisher var með 22, Pau Gasol var með 21 og Lamar Odom 17 stig og 13 fráköst.
 
Hjá Suns var Amare Stoudemire með 19 stig, Channing Frye með 14, Richardson 12 og þeir Jared Dudley og Grant Hill voru með 10 stig hvor.
Fréttir
- Auglýsing -