Kendrick Perkins verður með Boston Celtics í sjötta leiknum gegn Orlando Magic í kvöld, en talið var líklegt að hann yrði leikbanni.
Eftir að hafa verið vísað af velli í síðasta leik með tvær tæknivillur var þessi mikli rumur kominn með sjö slíkar í úrslitakeppninni sem þýðir sjálfkrafa eins leiks bann. Seinni tæknivillan, sem hann fékk fyrir að tuða í dómurum leiksins, var dregin til baka í gær og verður hann því með.
Það hefði verið mikið áfall fyrir Boston að missa Perkins, því að fáir eru eins góðir í að ráða við Dwight Howard og hann.
Eftir að hafa leikið sér að Magic í fyrstu þremur leikjunum misstu Celtics dampinn og hleyptu Howard og félögum aftur inn í seríuna.
Skarð er þó fyrir skildi hjá Boston því að Glen Davis og Marquis Daniels fengu báðir heilahristing í síðasta leik og Raheed Wallace fékk tak í bakið.
Daniels hefur þegar verið afskrifaður fyrir leikinn í kvöld, en óvíst er enn með Davis.



