spot_img
HomeFréttirAllar skoðanir góðar og gildar og við viljum þær upp á borðið

Allar skoðanir góðar og gildar og við viljum þær upp á borðið

 
Aðalfundur FKÍ, Félags Körfuknattleiksþjálfara á Íslandi, fór fram fyrir skömmu en verið var að endurvekja félagið eftir nokkurn dvala. Á aðalfundinum var Snorri Örn Arnaldsson kosinn formaður félagsins. Karfan.is ræddi við Snorra Örn sem hvetur alla áhugasama, starfandi jafnt sem óvirka þjálfara, að skrá sig í félagið og taka þátt í starfinu.
Á aðalfudinum var skipuð stjórn sem er eftirfarandi:
Snorri Örn Arnaldsson formaður, Pétur Guðmundsson gjaldkeri, Birgir Mikaelsson ritari og Ágúst S. Björgvinsson var kosin í varastjórn. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir þeir Árni Eggert Harðarson og Sigurður Hjörleifsson.
 
Hver verða fyrstu verk endurvakins félags?
 
Fyrsta verk félagsins verður að kynna félagið og fyrir hvað það stendur, en það er vel skilgreint í lögum félagsins. Okkar stefna er að sameina alla körfuknattleiksþjálfara í eitt félag sem getur þá gætt hagsmuna þjálfaranna sem og íþróttarinnar. Við viljum endilega fá alla þjálfara, bæði þá sem eru starfandi og þá sem hafa tekið sér hlé frá þjálfun með okkur í félagið, það er ekkert skilyrði að menn hafi verið að þjálfa núna í vetur eða ætli að þjálfa næsta vetur, bara að menn hafi áhuga á þessu og vilji þá taka þátt í að vinna með okkur í að efla körfuknattleiksþjálfun á Íslandi. Það sem stjórnin kemur til með að gera fyrst er að útvega félaginu kennitölu og bankareikning svo allt verði lögum samkvæmt, svo erum við byrjaðir að vinna í heimasíðu og fengum góðan mann í lið með okkur að teikna lógó fyrir félagið. Við munum svo funda fljótlega og ræða næstu skref og hefja félagaskráningu í framhaldinu.
 
Af hverju að endurvekja félagið núna, er mikill áhugi fyrir þessu starfi?
 
Þetta er draumur sem ég er búinn að ganga með í nokkurn tíma. Ég var búinn að ræða við nokkuð marga sem höfðu áhuga, en höfðu kannski ekki tíma til að koma beint að starfi svona félags, þannig að það var alveg ljóst í mínum huga að svona félag ætti erindi við þjálfara. Áhuginn sýndi sig líka á aðalfundinum um daginn, þar var mynduð stjórn og henni verður falið að búa til þetta félag og leggja línurnar. Það er frábært að fá svona reynslubolta úr íþróttinni með í starfið, þessir strákar hafa allir starfað lengi í körfuboltanum og hafa marga fjöruna sopið, þannig að þeir þekkja þetta allt saman. Það er samt ekkert skilyrði fyrir því að taka þátt í starfi félagsins að menn hafi áratugareynslu, allar skoðanir eru góðar og gildar og við viljum fá þær allar upp á borðið.
 
Mun félagið reyna að svipa til knattspyrnuþjálfarafélags Íslands í einhverjum efnum? Eins og t.d. að þjálfarar í úrvalsdeildum verði að hafa lokið ákveðnu menntunarstigi í þjálffræðum áður en þeir mega þjálfa í efstu deildum hérlendis?
 
Við horfum mikið til knattspyrnuþjálfarafélagsins, enda hefur það verið vel rekið og nær til stórs hóps knattspyrnuþjálfara. Sigurður Þórir formaður KÞÍ hefur unnið frábært starf þar og hefur einnig verið boðinn og búinn að aðstoða okkur í að koma okkar félagi á og ég er óendanlega þakklátur fyrir það. Nú er félagið komið á koppinn og bara undir okkur körfuknattleiksþjálfurum komið hversu öflugur þessi félagsskapur verður. Við munum klárlega beita okkur í fræðslumálum, bæði þá að veita KKÍ aðhald sem og að skipuleggja einhverja fræðslufundi eða námskeið. Við eigum eftir að leggja nánari drög að því, en ég sé ekki fyrir mér að FKÍ muni geta sett þjálfurum skorður út frá menntunarstigi, það er eitthvað sem er á hendi KKÍ.
 
Ljósmynd/ Af fésbókarsíðu Snorra – kappinn íbygginn á svip við hliðarlínuna. Snorri þekkir það jafn vel og margir aðrir þjálfarar að stundum þurfa menn að bíta í tunguna á sér.
 
Fréttir
- Auglýsing -