LeBron James segir lið sitt, Cleveland Cavaliers, hafa forskot á önnur lið þegar kemur að því að hann ákveði hvar hann muni leika að ári. Þetta sagði hann í samtali við Larry King í samnefndum þætti á CNN.
Þátturinn, þar sem King kom í heimsókn til James, verður sýndur á föstudag, en þessi ummæli láku út í dag.
Þetta verður í fyrsta sinn sem James tjáir sig við fjölmiðla síðan hann yfirgaf Boston Garden á dögunum eftir að hafa fallið úr leik í úrslitakeppninni.
Ekki þarf að fjölyrða um hvers er von þegar leiktímabilinu lýkur, en þá byrjar mikill darraðadans þar sem James, Dwayne Wade, Joe Johnson, Chris Bosh og að öllum líkindum Amare Stoudemire verða allir með lausan samning.
James er að vitaskuld stærstu verðlaunin í þessu máli og eru margir sem hugsa sér gott til glóðarinnar. NY Knicks, NJ Nets og Chicago Bulls eru meðal þeirra sem nefnd hafa verið til sögunnar og forsvarsmenn Dallas Mavericks og Atlanta Hawks hafa þegar verið sektaðir af NBA fyrir að opinbera áhuga sinn á leikmanninum áður en samningur hans er útrunninn.
Fyrirfram hafa Cavs þó verið taldir líklegastir til að hreppa hnossið, enda stjórnar hann þar öllu sem hann vill stjórna, getur fengið hæstu launin og síðast en ekki síst er þetta hans heimabær, en hann ólst upp í úthverfi borgarinnar.
Þegar King spurði hann: „Hallastu að þeim stað sem þú þekkir best? Hafa þeir forskot fyrirfram?“ Svaraði James óhikað: „Já, algjörlega. Þessi borg, þessir stuðingsmenn. Þau hafa gefið mér mikið á þessum sjö árum. Og mér líður vel hér. Ég á margar góðar minningar, þannig að [Cavs] hafa forskot.“



