Föstudaginn 4. júní n.k munu þeir kröftugu Helgafellsfrændur, Jón Bjarki Jónatansson og Þorgeir Ragnar Pálsson, hjóla frá Reykjavík til Stykkishólms. Þeir félagar ætla að tileinka hjólreiðarferð sína Íslands- og bikarmeisturum Snæfells og í tilefni þess hafa þeir hvatt alla að heita á þá með frjálsum framlögum sem rennur til kkd Snæfells. Finna má viðburðinn á fésbókinni (Hjólað fyrir Íslands- og bikarmeistara Snæfells)
Áætlað er að leggja af stað frá Reykjavík kl. 04:00 um morguninn föstudaginn 4. júní og koma í Stykkishólm um kl 18 sama dag. Gísli Einarsson mun hitta þá á miðri leið í Borganesi, taka við þá viðtal og fylgjast með hjólreiðartúrnum fyrir RÚV.
Ef áhugasamir slást í för þeim félögum og Snæfelli til stuðnings síðasta spölinn, þá er um að gera að láta slag standa, bóna hjólfákinn, smyrja keðjuna, herða bremsurnar og hjóla af stað. Gaman væri til dæmis að skella sér í hópinn við afleggjara Vatnaleiðar, Skjöld eða jafnvel Helgafell.
Til að gera þetta skemmtilegra er gaman að hafa krónutölu á hvern kílómeter, en til fróðleiks þá er kílómetrafjöldi frá Reykjavík til Stykkishólms um Hvalfjörð 213 km. (Um göngin 172 km)
Fólk og fyrirtæki eru hvött til að heita á þá frændur með frjálsu framlagi á reikning Snæfells. 309-13-6002 kt.600269-6079
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Hjólreiðagarparnir munu vera í ,,Nonna Mæju” búningum á för sinni frá höfuðstaðnum í Stykkishólm.



