spot_img
HomeFréttirThibodeu næsti þjálfari Bulls

Thibodeu næsti þjálfari Bulls

Tom Thibodeu, einn af aðstoðarmönnum Doc Rivers hjá Boston Celtics, hefur verið ráðinn þjálfari Chicago Bulls. Þetta herma heimildir fjölmiðla vestanhafs, en Thibodeu, sem er varnarsérfræðingur, hefur verið orðaður við flest öll laus störf síðustu tvö ár eða svo.
Eftir átján ára starf með sjö liðum þar sem hann gat sér gott orð, var hann helst spyrtur við New Orleans Hornets og fór í viðtöl við forsvarsmenn liðsins, en mál manna var að hann hafi verið að bíða eftir boði frá NJ Nets eða Bulls, sem og raunin varð.
 
Bulls hafa verið að skoða markaðinn síðan Vinny Del Negro var látinn taka pokann sinn á dögunum eftir tvö viðburðarlítil ár. Er það mál spekinga að í Thibodeu hafi þeir fengið góðan mann sem gæti snúið við gæfuhjólinu á þessu fornfræga stórveldi sem hefur ekki borið sitt barr eftir að Michael Jordan gekk þaðan út eftir sex meistaratitla árið 1998.
 
Ekki þykir síðra að hann er með sama umboðsmann og LeBron James, sem er að skoða möguleika sína þetta sumarið eins og allir vita og Chicago eru meðal líklegri lendingastaða hans ef hann þá ákveður að yfirgefa Cleveland.
 
Thibodeu fékk að sögn kunnugra þriggja ára samning sem Bulls geta endurskoðað eftir tvö ár, en hann mun klára úrslitaeinvígið með Celtics áður en tilkynnt verður formlega um ráðninguna.
 
Af fleiri þjálfaramálum má geta þess að Hornets eru víst búnir að semja við Monty Williams, sem var aðstoðarmaður hjá Portland Trailblazers, og Atlanta Hawks eru að ræða við Mark Jackson og Avery Johnson um þjáfarastöðuna sem losnaði þegar þeir ráku Mike Woodson.

 
Fréttir
- Auglýsing -