spot_img
HomeFréttirAllen og Rondo sáu um Lakers - Staðan jöfn eftir tvo leiki

Allen og Rondo sáu um Lakers – Staðan jöfn eftir tvo leiki

Boston Celtics unnu góðan sigur í öðrum leik NBA úrslitanna gegn LA Lakers í nótt, 94-103, og hafa liðin því unnið sinn leikinn hvort. Stórleikur Ray Allen og Rajon Rondo var það sem skildi á milli liðanna.
 
Eftir dapra frammistöðu í fyrsta leik liðanna var Ray Allen greinilega staðráðinn í að kvitta fyrir það og sprakk hreinlega út í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 27 stig, þar af hitti hann úr fyrstu sjö af átta 3ja stiga skotum sínum og bætti einni enn við í seinni hálfleik og sló því metið fyrir flestar slíkar í úrslitarimmu.
 
Þegar hann kólnaði í seinni hálfleik tók ekki betra við fyrir Lakers þar sem Rajon Rondo tók við keflinu og gekk berserksgang. Hann lauk leik með þrefalda tvennu, 19 stig, 12 fráköst og 10 stoðendingar.
 
Kobe Bryant var í miklum villuvandræðum og var aðeins með 21 stig á meðan bakverðir Boston fóru sínu fram. Stóru menn Lakers stóðu hins vegar vel fyrir sínu og var Pau Gasol með 25 stig og Andrew Bynum bætti við 21 sem eru góðar fréttir fyrir Lakers, því að hann hefur átt við hnémeiðsli að stríða. Þeir voru líka drjúgir í vörninni þar sem Bynum varði 7 skot og Gasol 6.
 
Kevin Garnett lenti í villuvandræðum eins og Kobe og var aðeins með 6 stig í leiknum, og Paul Pierce var aðeins með 10 stig og afleita skotnýtingu.
 
Leikurinn var afar jafn og spennandi þar sem staðan var jöfn fyrir lokaleikhlutann, en Rondo reyndist of sterkur á lokasprettinum. Hann kom Boston yfir með laglegu sniðskoti þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka og þeir leiddu allt til loka.

 
Fréttir
- Auglýsing -