spot_img
HomeFréttirHárið fauk af stuðningsmanni nr. 1

Hárið fauk af stuðningsmanni nr. 1

 
Hárskerinn Símon B. Hjaltalín er dyggur stuðningsmaður Snæfells og því í sjöunda himni þessa dagana eftir glæsta leiktíð Íslands- og bikarmeistaranna. Dag einn við störf sín á hársnyrtistofunni í Hólminum lét hann þau orð falla að ef sitt lið myndi vinna þann stóra skyldi hárið fjúka. Þar sem Keflavík var andstæðingurinn og Snæfell ekki riðið feitum hesti frá úrslitarimmum gegn Keflavík gat Símon, nokkuð kokhraustur, látið þessi stóru orð falla sem þau vissulega voru enda Símon með hárprúðari mönnum landsins.
Ekki var laust við að nokkur geðshræring hefði gert vart um sig í brjósti Símonar þegar Hlynur Elías Bæringsson sendi Íslandsmeistaratitilinn á loft í Toyota-höllinni og höfðu gárungarnir í Hólminum það á orði að nú vissi enginn hvort Símon væri að fagna titlinum eða gráta hárið.
 
Að lokum fór svo að hárið fauk og nú er eini hárskeri Stykkishólms hárlaus þökk sé Emil Þór Jóhannssyni sem mundaði klippurnar.
 
Ljósmyndir/ Nonni Mæju

Fréttir
- Auglýsing -