Tiago Splitter og félagar í Caja Laboral eru Spánarmeistarar í körfuknattleik eftir dramatískan sigur á Barcelona 79-78. Laboral vann einvígið 3-0 en fyrir úrslitin hafði Barcelona ekki tapað leik í úrslitakeppninni á meðan Laboral kom úr oddaviðureign í undanúrslitum gegn Real Madrid. Tiago Splitter leikmaður Laboral var valinn besti maður úrslitanna en hann var einnig útnefndur besti leikmaður deildarinnar fyrr á tímabilinu.
Framlengja varð leikinn í kvöld þar sem San Emeterio reyndist hetja heimamanna. Barcelona gátu aukið muninn í þrjú stig þegar 7,5 sekúndur voru til leiksloka. Börsungar brenndu af vítinu, San Emeterio náði frákastinu, brunaði upp völlinn, réðst til atlögu á körfu Barca, skoraði og fékk villu að auki, setti vítið og 0,5 sekúndur til leiksloka. Ævintýralegur sigur hjá Caja Laboral en Barcelona áttu lokaskotið frá sínum eigin vallarhelmingi sem hafnaði í körfuhringnum og mikil fagnaðarlæti brutust út á meðal leik- og stuðningsmanna Laboral þegar ljóst var að titillinn var í höfn.
Lior Eliyaho var stigahæstur í liði Laboral með 18 stig, Tiago Splitter gerði 14 stig og tók 13 fráköst en það kom svo í hans hlut að henda þeim stóra á loft. Hjá Barcelona var Juan Carlos Navarro stigahæstur með 18 stig.
Ljósmynd/ www.acb.com – Það vantaði ekki confetti-veisluna í kvöld þegar Caja Laboral sópaði Barcelona 3-0 og fagnaði spænska meistaratitlinum.



