spot_img
HomeFréttirLakers meistarar annað árið í röð!

Lakers meistarar annað árið í röð!

Los Angeles Lakers vörðu NBA meistaratitilinn mð því að leggja erkifjendur sína, Boston Celtics að velli í oddaleik í nótt, 83-79.
 
Lakers voru undir nær allan leikinn þar sem sterkur varnarleikur Boston hélt Kobe Bryant og Pau Gasol í skefjum, en hinn litríki Ron Artest hélt Lakers inni í leiknum og eftir að þeir náðu tökum á leiknum um miðjan fjórða leikhluta varð ekki aftur snúið og sextándi meistarafáninn fer upp í rjáfur Staples Center.
 
 
 
 
 
Þetta var fimmti meistaratitill Kobes Bryant sem var einnig valinn besti maður úrslitanna annað árið í röð. Hann hefur nú unnið jafn marga titla og goðsögnin Magic Johnson, sem var einmitt einn sá fyrsti til að faðma hann að sér í leikslok.
 
„Þessi er sá langsætasti,“ sagði Kobe í leikslok. „Og sá langerfiðasti. Ég þráði þetta svo mikið og stundum þegar maður þráir hluti of mikið geta þeir runnið þér út greipum. Strákarnir mínir bökkuðu mig hins vegar upp.“
 
 
Nú þurfa Lakers aðeins einn titil í viðbót til að jafna met Boston Celtics, en þetta var aðeins í þriðja skiptið í tólf tilraunum sem þeir leggja þessa erkifjendur sína í úrslitum og í fyrsta sinn sem Lakers hafa unnið þá í oddaleik.
 
Boston kom til LA með 3 sigra í farteskinu og þurftu einn sigur í síðustu tveimur leikjunum til að tryggja titilinn. Það leit lengi vel út fyrir að þeir myndu ná sínu markmiði í nótt því að Lakers átti skelfilegan leik og hittu t.a.m. aðeins úr um fjórðungi skota sinna í fyrri hálfleik og þeir Kobe og Gasol voru með sex körfur samtals.
 
Baráttuhundurinn Artest, sem hefur verið óútreiknanlegur í þessari seríu eins og fyrr, átti hins vegar stórleik beggja vegna vallarins með góðum varnarleik og 20 stigum og hélt sínum mönnum inni í leiknum. Einnig má segja að Boston hafi hreinlega ekki nýtt sér færin sem þeir fengu til að klára leikinn og þannig hleypt Lakers inn í leikinn á lokasprettinum.
 
Karfa Artests og vítaskot að auki jafnaði leikinn 61-61, þegar 7 og hálf mínúta voru til leiksloka og Kobe kom sínum mönnum yfir með vítaskotum þegar leikhlutinn var nákvæmlega hálfnaður. Lakers náði svo fimm stiga forskoti áður en Kobe og Sasha Vujacic kláruðu leikinn af vítalínunni.
 
Kobe var stigahæstur Lakers með 23 stig og tók einnig 15 fráköst, Artest var með 20 eins og fyrr sagði, Gasol var með 19 stig og 18 fráköst og Derek Fisher var með 10 stig.
 
Hjá Boston var Paul Pierce með 18 stig og Kevin Garnett 17, Rajon Rondo bætti við 14 og gaf 10 stoðsendingar, Ray Allen gerði 13 og Rasheed Wallace 11.
 
Lítið kom út úr bekkjunum hjá liðunum þar sem Lamar Odom, sem var hérumbil byrjunarliðsmaður, var með 7 stig fyrir Lakers og Vujacic 2, en hjá Boston var Glen Davis með 6 stig og er það þar með upptalið.
 
Mikið var rætt um stöðu Kobe Bryants sem fremsta leikmanns Lakers frá upphafi. Fimm titlar og fleiri stig en nokkur annar liðsmaður ættu að vera sterk rök, en hann er upp á móti sumum stærstu nöfnum í sögu íþróttarinnar, fyrst og fremst Magic og Jerry West, lærimeistara Kobes.
 
Jafnvel hefur spunnist upp samanburður við sjálfan Michael Jordan en Kobe sagðist kæra sig kollóttan um slíkt. Hann væri í þessum bransa til að vinna meistaratitla og það væri hans eina takmark.
 
Þetta var einnig 11. titill Phil Jackson, sem hefur unnið fleiri titla en nokkur annar þjálfari. Hann er með lausan samning eins og er, og er alls óvíst hvað hann gerir á næsta ári, þó hann hafi að vísu lýst því yfir að sigur í ár og möguleiki á fjórðu þrennunni (hann vann áður: 91-93, 96-98, 00-02 og nú 09-10) myndi frekar hvetja hann til að snúa aftur. Allt veltur þó á samráði hans við lækna á næstu vikum, en eins og flestir vita er hann plagaður af veikindum í fótum, baki og mjöðm.
 
Meistaraliðið ætti hins vegar að haldast nær óbreytt þar sem allir lykilmenn liðsins eru með samning út næsta tímabil hið minnsta.
 
Meiri óvissa er með Boston þar sem t.a.m. Ray Allen er með lausan samning.
 
Fréttir
- Auglýsing -