spot_img
HomeFréttirManute Bol látinn, 47 ára að aldri

Manute Bol látinn, 47 ára að aldri

Risinn Manute Bol, fyrrum leikmaður Washington Bullets, Golden State Warriors, Philadelphia 76ers og Miami Heat, er látinn 47 ára að aldri. Hann var einn skæðasti varnarmaður deildarinnar á þeim 10 árum sem hann lék í deildinni en mátti sín lítils gegn skæðum nýrnasjúkdómi og húðsýkingu sem hafði plagað hann að undanförnu.
 
Bol verður ekki bara minnst sem hávaxnasta leikmanns deildarinnar frá upphafi (231 sm á hæð), heldur var hann vel þokkaður af öllum þeim sem kynntust þessum hægláta manni og eftir að ferli hans lauk einbeitti hann sér að mannúðarstörfum í heimalandi sínu Súdan undir merkjum samtakanna Sudan Sunrise.
 
Þar vann hann að því að koma á friði milli stríðandi fylkinga auk þess sem hann einbeitti sér að því að byggja upp skóla.
 
Það var hann einmitt að gera í síðasta mánuði þegar hann var beðinn um að vera lengur í landinu til að vekja athygli á kosningunum sem þar fóru fram. Þegar hann sneri aftur til Bandaríkjanna var hann orðinn afar þjakaður af húðsjúkdómi sem lagðist á munn hans þar sem hann kom varla niður matarbita svo dögum skipti.
 
Talið er að hann hafi smitast af sjúkdómnum við að taka nýrnalyf sem hann fékk í Súdan.
 
Bol lék í NBA frá 1985 til 1995 og var með 2,6 stig, 4,2 fráköst og 3,3 varin skot að meðaltali í leik á ferli sínum. Hann leiddi deildina tvisvar í vörðum skotum, 1985-86 og 1988-89, en átti líka til að setja 3ja stiga körfur, þar af hitti hann einu sinni úr sex af tólf 3ja stiga skotum í einum hálfleik.
 
Hans verður sárt saknað af þeim sem kynntust honum sem körfuknattleiksmanns, en enn frekar þeim sem hann hafði unnið sleitulaust fyrir í stríðshrjáðu landi sínu.
 
Fréttir
- Auglýsing -