spot_img
HomeFréttirJoe Johnson semur við Hawks - Yfirlit yfir samninga sumarsins

Joe Johnson semur við Hawks – Yfirlit yfir samninga sumarsins

Stafalogn er á leikmannamarkaði NBA þessa stundina, á yfirborðinu altént, þar sem ekkert hefur dregið til tíðinda frá því að spurðist út að Joe Johnson hefði vissulega samið við Atlanta um áframhaldandi sex ára samning upp á litlar 120 milljónir dala. Sýnist sitt hverjum um þessa ráðstöfun, en Johnson hefur skilað ágætum tölum síðustu ár og heldur því vonandi áfram fyrir þessa risavöxnu upphæð.
 
Þeir samningar sem þegar hafa litið dagsins ljós, eða eru allt að því öruggir eru þessir:
 
Leikstjórnendur:
Steve Blake (30 ára) frá Clippers til Lakers á 16 milljóna samning til fjögurra ára.
Sergio Rodriguez (24 ára) frá Knicks til Real Madrid á Spáni
 
Skotbakverðir:
Joe Johnson (29 ára) áfram hjá Atlanta Hawks fyrir 120 milljónir í sex ár.
John Salmons (30 ára) áfram hjá Milwaukee Bucks fyrir 40 milljónir í fimm ár.
 
Framherjar:
Paul Pierce (32 ára) áfram hjá Boston fyrir 61 milljón í fjögur ár.
Rudy Gay (23 ára) áfram hjá Memphis Grizzlies fyrir 82 milljónir í fimm ár.
Hakim Warrick (27 ára) frá Bulls til Phoenix Suns fyrir 18 milljónir í fjögur ár.
Dirk Nowitzki (32 ára) áfram hjá Dallas Mavericks fyrir 80 milljónir í fjögur ár.
Drew Gooden (28 ára) frá Clippers til Bucks fyrir 32 milljónir í fimm ár.
Amir Johnson áfram hjá Toronto Raptors fyrir 34 milljónir í fimm ár.
 
Miðherjar:
Darko Milicic áfram hjá Minnesota Timberwolves fyrir 20 milljónir í fjögur ár.
Channig Frye áfram hjá Suns fyrir 30 milljónir í fimm ár.
 
Auk þess er talið nær öruggt að framherjinn Amare Stoudemire fari til NY Knicks fyrir 100 milljónir í fimm ár, en aðrir af toppleikmönnum á lausu eru enn að skoða markaðinn.
 
Eins og er þykir líklegast að þeir LeBron James og Dwayne Wade verði um kyrrt í sínum herbúðum, Wade hjá Miami Heat og LeBron í heimabæ sínum Cleveland.
 
Haft er eftir forsvarsmönnum liða í NBA, undir nafnleynd að sjálfsögðu, að LeBron hafi ekki verið fullkomin alvara með að yfirgefa Cavs, sem geti fyrir utan allt annað boðið honum hærri laun en nokkuð annað lið. Hann hafi hins vegar séð sér leik á borði með að kynna ímynd sína um allan heim með þessu tilstandi, sem og nýtt markaðs- og kynningarfyrirtæki sem hann og æskuvinir hans hleyptu nýlega af stokkunum.
 
Wade hefur gefið til kynna að hann ætli að tilkynna ákvörðun sína í þessari viku þannig að það fer vissulega að draga til tíðinda eftir rólega byrjun á gullæðinu sem beðið hefur verið í tvö ár.
 
Þess má loks geta í framhjáhlaupi að nú er þegar farið að líta til næsta árs þear t.d. Carmelo Anthony verður með lausan samning, og NY Knicks losna blessunarlega við ofvaxinn ólánssamning hins ofvaxna og ólánsama Eddy Curry, þannig að það má vissulega horfa fram á veginn þó hlutirnir gangi ekki öllum í hag í sumar.
Fréttir
- Auglýsing -