Carlos Boozer, einn af síðustu stóru bitum leikmannamarkaðs NBA, er á leið í örugga höfn þar sem Chicago Bulls hafa samið við framherjann öfluga um fimm ára samning upp á 80 milljónir.
Þetta er haft eftir öruggum heimildum, en Chicago brást fljótt við eftir að Dwayne Wade og Chris Bosh ákváðu að semja við Miami Heat. Bulls eiga enn eftir rými undir launaþakinu til að festa sér annan toppleikmann, en sá síðasti á markaðnum, LeBron James, mun tilkynna um framtíð sína í sjónvarpi í kvöld.
Þá hefur Ray Allen, bakvörður Austurstrandarmeistaranna í Boston Celtics, samið við liðið til tveggja ára í viðbót um mun að öllum líkindum ljúka gifturíkum ferli sínum hjá liðinu þar sem hann fékk sinn fyrsta og eina meistaratitil.Allen, sem er 35 ára, samdi við Celtics til tveggja ára og fær fyrir það 20 milljónir dala. Celtics eru að gera sitt besta til að halda saman liðinu sem hefur gert svo góða hluti síðustu þrjú ár þar sem þeir sömdu nýlega við Paul Pierce um áframhaldandi samning og eru, samkvæmt fréttum, að vonast til að fá miðherjann Jermaine O‘Neal til liðsins. Hann verður þó nokkur fengur fyrir Celtics ef af verður, en miðherji þeirra, Kendrick Perkins verður frá vegna hnémeiðsla framan af næsta tímabili og allar líkur eru á að Rasheed Wallace hengi upp treyjuna til frambúðar í sumar.
O‘Neal er með lausan samning en var hjá Miami Heat síðasta vetur. Hann er víst að velta fyrir sér þremur kostum, Celtics, Denver Nuggets og Dallas Mavericks þar sem Celtics og Denver eru víst líklegri.
NJ Nets sitja enn á gullkistunni sinni en liggur víst ekkert á að fá til sín menn. Þeir eru enn að vonast til þess að James komi til þeirra, en eru annars með augun á fjórum leikmönnum, Tyrus Thomas, Kyle Korver og Travis Outlaw auk David Lee.
Þá er stórskyttan JJ Redick hjá Orlando Magic farinn að vekja athygli annara liða, líkt og NY Knicks og Chicago Bulls, en Magic, sem geta jafnað öll boð til að halda leikmanninum, eru víst spenntir til að hafa hann áfram innan sinna raða eftir sterka frammistöðu á síðasta tímabili.



