NBA-deildin hefur tilkynnt að tveir deildarleikir milli New Jersey og Toronto verða í London í mars. Er þetta í fyrsta sinn að deildarleikir í NBA verða í Evrópu en fyrsti leikurinn var í Japan árið 1990 milli Phoenix og Utah.
Það er enginn tilviljun að London sé leikstaður en NBA-deildin er að nýta sér þá athygli sem körfubolti mun fá á Ólympíuleikunum en þeir verða einmitt í London árið 2012.
Mikil aukning hefur orðið á iðkun körfubolta í Bretlandi en hún hefur fjórfaldast á undanförnum árum. Nokkrir æfingaleikir milli NBA liða sem og evrópskra liða hafa verið í London á síðustu árum.
Alls hafa 13 NBA-deildarleikir farið fram utan Norður-Ameríku frá árinu 1990 en þeir hafa flestir verið í Japan.
Mynd: Andrea Bargnani er ein af fjölmörgum evrópsku stjörnunum í NBA.



