Enn kvarnast úr hópi Grindvíkinga í Iceland Express deild kvenna en nú hefur Íris Sverrisdóttir staðfest að hún muni ekki leika með uppeldisfélaginu á næstu leiktíð. Þá er enn ekki komið á hreint hvar hún muni velja sér stað.
„Ég kem heim um helgina og þá skýrist þetta vonandi,“ sagði Íris í samtali við Karfan.is en hún hefur dvalið á Egilsstöðum í sumar með kærasta sínum sem leikur þar knattspyrnu. Íris hefur einnig flust á höfuðborgarsvæðið og bjóst við því að annað hvort Haukar eða KR yrðu fyrir valinu.
„Vissulega er leiðinlegt að fara frá Grindavík en eitthvað þarf maður að gera til að komast áfram í íþróttinni,“ sagði Íris sem síðustu ár hefur verið einn af lykilleikmönnum Grindavíkur. Á síðustu leiktíð var Íris með 8,8 stig, 4,3 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik með Grindavík.
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson – Íris í leik með Grindavík gegn KR á síðasta tímabili. Fer hún í röndótt eða rautt?



