spot_img
HomeFréttirPúlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Snæfell

Púlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Snæfell

 
Töluverðar breytingar hafa orðið á kvennaliði Snæfells fyrir komandi leiktíð og nokkuð skarð verið höggvið í leikmannahóp liðsins. Farnar frá félaginu eru Gunnhildur Gunnarsdóttir og Unnur Lára Ásgeirsdóttir í Hauka. Hanna Rún Smáradóttir er farin í nám í Reykjavík og ekki með vegna anna í vinnu og skóla er Sara Sædal Andrésdóttir fyrirliði á síðasta ári. Karfan.is ræddi við Inga Þór Steinþórsson um komandi tímabil og segir hann spennandi að vinna áfram með þetta unga lið Hólmara.
,,Við höfum fengið Ingu Muciniece frá Lettlandi til liðs við okkur en hún lék síðast í Bandaríkjunum með NC State og þá er væntanlegur til okkar amerískur leikmaður. Annars er ég með ungt lið og verður mjög spennandi að vinna með þessum áhugasömu stelpum áfram næsta vetur með Baldri Þorleifs,“ sagði Ingi Þór og kveðst stoltur af árangri liðsins á síðustu leiktíð.
 
,,Liðið náði í fyrsta skipti í sögu klúbbsins inn í úrslitakeppnina en við erum afar raunhæf og ætlum að njóta þess að vera til og stunda körfu af krafti, þannig náum við árangri og við ætlum okkur að standa stolt eftir tímabilið,“ sagði Ingi en hvernig metur hann önnur lið í deildinni?
 
,,Öll liðin í deildinni eru að breytast og er spurning hvaða lið hefja tímabilið með kana. Ég tel að deildin verði skemmtileg og fróðlegt að fylgjast með hvaða leikmenn eiga eftir að blómstra í vetur. Toppliðin verða áfram öflug og alveg á tæru að allir klúbbar ætla að vera með í baráttunni á sinn hátt sem er frábært fyrir kvennaboltann. Það eina sem ég veit um veturinn er að Snæfelsstúlkur ætla að mæta stemmdar til leiks og njóta þess að gera betur í dag en í gær.“
 
Ljósmynd/ Eyþór Benediktsson: Ingi Þór náði mögnuðum árangri með bæði Snæfellsliðin á sínu fyrsta ári í Hólminum
 
Fréttir
- Auglýsing -