Bandaríski leikmaðurinn Antonio Houston mun leika með Njarðvíkingum í Iceland Express deildinni á komandi leiktíð en Houston þessi kemur frá Catawba háskólanum þar sem bræðurnir Finnur og Helgi Magnússynir hafa báðir leikið. Sigurður Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga sagði í samtali við Karfan.is að Houston væri svona ,,sitt lítið af hverju“ leikmaður.
,,Ég er mjög óánægður með nafnið á leikmanninum, hann hefði átt að heita Boston en ekki Houston,“ sagði Sigurður gamansamur þegar Karfan.is náði tali af þjálfaranum. Eins og margir vita er Sigurður mikill aðdáandi Boston Celtics.
,,Houston á eftir að fá allskonar hlutverk hjá okkur en hann skoraði svolítið í þessum leikjum með Catawba og þykir líkamlega sterkur,“ sagði Sigurður en Houston lauk námi við Catawba skólann á síðasta tímabili.
Ekki hefur verið rætt um viðbætur í málefnum erlendra leikmanna sagði Sigurður, þ.e. að bæta við hópinn Evrópuleikmanni. ,,Það er ekki stefnan eins og er en maður veit aldrei og mér sýnist liðin vera ansi dugleg í þessu núna en þetta hefur ekki verið rætt hjá okkur og enn er langt í mót,“ sagði Sigurður og það eru fleiri endar lausir þar sem staða mála hjá Friðriki Erlendi Stefánssyni er óljós. Miðherjinn hefur ekkert gefið út um stöðu sína til þessa og hefur ekki æft með grænum þetta sumarið.
Ljósmynd/ Houston í leik með Catawba á síðasta tímabili.



