spot_img
HomeFréttirÞór Akureyri lagði Ármann í Höllinni (Umfjöllun)

Þór Akureyri lagði Ármann í Höllinni (Umfjöllun)

 
Þór Akureyri nældi í góðan 78-89 sigur gegn Ármenningum í 1. deild karla á laugardag. Daginn áður höfðu Þórsarar leikið tvíframlengdan leik gegn FSu þar sem Þórsarar máttu sætta sig við ósigur. Eftir tvo leiki á jafn mörgum dögum liggja 2 stig í valnum og Þór í toppsætinu með nöfnum sínum úr Þorlákshöfn en Benedikt og lærisveinar af Suðurlandinu eiga leik til góða á Norðlendingana. 
Bæði lið voru fremur mistæk í upphafi leiks og eftir fimm mínútur var staðan aðeins 3-7 fyrir Þórsara. Smátt og smátt fór Þór að taka yfir en Antonio Houston mótmælti því fyrir Ármenninga með smá rispu en það dugði skammt og Þór leiddi 16-26 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Houston opnaði annan leikhluta með villu og körfu en Þórsarar gerðu vel að halda Ármenningum fjarri. Helgi Þorláksson náði samt að minnka muninn í 2 stig, 40-42 en Þórsarar gerðu 4 síðustu stig hálfleiksins og leiddu 40-46 í leikhléi.
 
Heimamönnum gekk illa að finna körfuna í upphafi síðari hálfleiks og tók Tómas Hermannsson leikhlé fyrir Ármann þegar Þórsarar höfðu gert 9-0 áhlaup á Ármenninga og staðan 40-55. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 52-69 Þórsurum í vil þar sem Ármenningar áttu fínan endasprett með stolnum bolta og þriggja stiga körfu.
 
Halldór Kristmannsson var iðinn við kolann fyrir Ármenninga í upphafi fjórða leikhluta sem pressuðu svo á gesti sína og hafði það tilætluð áhrif enda skoruðu Þórsarar ekki fyrr en rétt rúmar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Á næstu mínútum tókst Ármanni að færast nær og minnkuðu muninn í 73-79, nær komust Ármenningar ekki og Þórsarar sem fyrr í leiknum höfðu byggt upp gott forskot kláruðu dæmið 78-89.
 
Ármann: Halldór Kristmannsson 20, Antonio Houston 14/8 fráköst, Sverrir Kári Karlsson 13/10 fráköst, Hermann M. Maggýarson 10, Egill Vignisson 5, Þorsteinn Húnfjörð 4/6 fráköst, Aron Kárason 4, Oddur Jóhannsson 3, Geir Þorvaldsson 3, Helgi Hrafn Þorláksson 2/5 fráköst, Kristinn Geir Pálsson 0, Steinar Aronsson 0.
 
Þór Ak.: Konrad Tota 27/5 fráköst/6 stoðsendingar, Óðinn Ásgeirsson 25/14 fráköst, Ólafur Torfason 13/8 fráköst, Wesley Hsu 8/6 fráköst, Baldur Már Stefánsson 6/4 fráköst, Benedikt Eggert Pálsson 6/5 stoðsendingar, Björgvin Jóhannesson 2, Sigmundur Óli Eiríksson 2, Hjalti Magnússon 0, Sindri Davíðsson 0, Bjarki Ármann Oddsson 0, Stefán Karel Torfason 0.
 
Dómarar: Erlingur Snær Erlingsson, Jón Bender
 
Áhorfendur: 50
 
Myndasafn og umfjöllun: Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -