Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er að gera það gott í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir. Þar hefur hann komið sér vel fyrir með Birnu Þorkelsdóttur eiginkonu sinni og börnum þeirra Söru Björk og Loga Erni. Hann er annar stighæstur í deildinni með rúmlega 21 stig að meðaltali og lið hans Solna Vikings er í sjötta sæti deildarinnar. Á dögunum skoraði Logi meðal annars 38 stig á 25 mínútum og setti niður sjö þriggja stiga körfur. Logi hefur á ferli sínum áður leikið í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Finnlandi. Víkurfréttir fengu Loga í létt spjall um lífið í atvinnumennskunni.
Hver er skyrkleiki sænsku deildarinnar miðað við hinar sem þú hefur leikið í ? Styrkleikinn á deildinni er bara góður og myndi ég líkja henni við úrvalsdeildina í Finnlandi sem ég spilaði í fyrir nokkrum árum. Þetta eru tvær sterkustu deildirnar á Norðurlöndunum
.
Hversu stórt er liðið sem þú leikur með?
Solna Vikings er stór klúbbur, með mikla hefð og hafa unnið marga titla. Yfir tímabilið eru á milli eitt og tvo þúsund áhorfendur á leikjum en í úrslitakeppninni er mér sagt að það fari í þrjú til fjögur þúsund.



