Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld sæti í 16 liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar með sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Leikurinn var sá stærsti í 32 liða úrslitunum og komu Njarðvíkingar meðvitaðir um þá staðreynd til leiks, sömu sögu er ekki hægt að segja af Garðbæingum sem þrátt fyrir góða baráttu á endasprettinum höfðu í raun kastað frá sér leiknum með andlausri byrjun gegn vel stemmdum gestunum. Lokatölur í Ásgarði reyndust 94-110 Njarðvíkingum í vil. Jóhann Árni Ólafsson fór mikinn hjá Njarðvíkingum með 28 stig og 5 fráköst en Jovan Zdravevski gerði 29 stig í liði Stjörnunnar.
Rúnar Ingi Erlingsson kom Njarðvíkingum í 4-9 með þriggja stiga körfu og skömmu síðar mættu Jóhann Árni Ólafsson og Guðmundur Jónsson með tvo þrista í röð og Njarðvíkingar komnir í 10-19. Grænir voru ferskari í upphafi leiks þar sem Rúnar Ingi glæddi sína menn lífi og keyrði upp hraðann í Njarðvíkurliðinu, Stjörnumenn voru á hælunum fyrst um sinn en tóku svo við sér með Marvin Valdimarsson í broddi fylkingar sem skoraði 10 af fyrstu 17 stigum heimamanna í leiknum. Christopher Smith var með 8 stig og 5 fráköst í Njarðvíkurliðinu eftir fyrsta leikhluta og var Garðbæingum illur viðureignar, sömuleiðis var Marvin Valdimarsson gestunum skeinuhættur með 10 stig á jafn mörgum mínútum en Njarðvíkingar leiddu 18-25 eftir upphafshlutann.
Njarðvíkingar slúttuðu fyrsta leikhluta með því að bregða sér í svæðisvörn og héldu sig við þann háttinn í upphafi annars leikhluta. Ólafur Aron, fyrrum leikmaður Njarðvíkinga, og Jovan Zdravevski fengu svæðisvörnina til að hugsa sig tvisvar um er þeir smelltu niður sitthvorum þristinum og minnkuðu muninn í 24-25. Skömmu síðar komust Garðbæingar yfir 28-27 þegar Ólafur Aron stal boltanum og skoraði sjálfur úr hraðaupphlaupi, flott innkoma hjá Ólafi.
Njarðvíkingar voru í því að hoppa á milli svæðisvarnar og maður á mann varnar og virtist svæðið ekki virka nægilega vel framan af öðrum leikhluta þar sem heimamenn hittu ágætlega. Það sem stóð Garðbæingum hinsvegar á sporði var að þeir Fannar Helgason og Justin Shouse voru vart skugginn af sjálfum sér fyrstu 20 mínútur leiksins.
Jóhann Árni Ólafsson gerði besta vini sínum ,Daníeli Guðmundssyni, grikk þegar 13 sekúndur voru til hálfleiks er hann smellti þrist yfir Daníel og kom Njarðvíkingum í 39-52 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Jóhann Árni var með 15 stig hjá gestunum og Christopher Smith 10 en Jovan Zdravevski var með 16 stig hjá Stjörnunni og Marvin Valdimarsson 10.
Rúnar Ingi Erlingsson kom Njarðvíkingum í 41-59 með þriggja stiga körfu og ekki löngu síðar haltarði Friðrik Stefánsson af velli og virtist kveinka sér en hann kom þó aftur inn á völlinn síðar. Christopher Smith kom Njarðvíkingum svo 20 stigum yfir með körfu í teignum og staðan 41-61 og fátt sem benti til þess að heimamenn ætluðu sér eitthvað í þessum leik.
Þegar um 25 mínútur voru liðnar af leiknum voru aðeins fimm leikmenn Stjörnunnar búnir að skora og staðan 47-71 Njarðvíkingum í vil. Hægt og bítandi náðu heimamenn þó að sýna smá baráttu og gerðu síðustu sjö stig þriðja leikhluta og komu muninum undir 20 stigin en Njarðvíkingar leiddu þó 57-74 fyrir lokasprettinn.
Allt annað Stjörnulið var á parketinu í lok þriðja og allan fjórða leikhluta. Jovan minnkaði muninn í 65-78 með þrist og þá lifnaði enn betur yfir heimamönnum og áhangendum þeirra. Justin Shouse var allur að koma til en það var auðsjánlega dýrkeypt fyrir Stjörnuna að hafa hann ekki á spariskónum í fyrri hálfleik.
Marvin Valdimarsson minnkaði muninn í 80-92 með gegnumbroti en munurinn var orðinn einfaldlega of mikill og Njarðvíkingar kvittuðu fyrir ósigurinn í deildinni með því að slá Stjörnuna út úr Poweradebikarnum, lokatölur 94-110 og Njarðvíkingar komnir í 16 liða úrslit.
Jóhann Árni Ólafsson var stigahæstur í liði Njarðvíkinga með 28 stig og 5 fráköst, Christopher Smith gerði 22 stig og tók 7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson átti glimrandi dag í Njarðvíkurliðinu með 15 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og þá var Lárus Jónsson ekki síðri með 12 stig.
Hjá Garðbæingum var Jovan Zdravevski með 29 stig en þeir Marvin Valdimarsson og Justin Shouse komu honum næstir með 27 stig en Justin eins og fyrr greinir nokkuð seinn í gang þó hann hefði verið baneitraður á lokasprettinum. Fannar Helgason komst ekki á blað í Stjörnuliðinu í kvöld og munaði um minna gegn sterkum teig þeirra Njarðvíkinga.
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – Rúnar Ingi Erlingsson lék vel í Njarðvíkurliðinu í kvöld.



