,,Menn voru ekki endilega bara með síðasta leik okkar hérna í huganum fyrir leikinn í kvöld heldur bara allt tímabilið, hingað til höfum við verið á hælunum en ákváðum að gyrða okkur í brók og gera þetta almennilega,“ sagði Jóhann Árni Ólafsson í samtali við Karfan.is eftir 94-110 sigur Njarðvíkinga á Stjörnunni í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins. Jóhann fór mikinn í leiknum með 28 stig og 5 fráköst.
Þegar 13 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik setti Jóhann niður eitraðan þrist yfir æskuvin sinn Daníel Guðmundsson, var það einkennileg stund fyrir þá vinina? ,,Þetta var líka villa, karfa góð! Hann braut á mér,“ sagði Jóhann léttur í bragði en gerðist svo aðeins alvarlegri. ,,Danni er einn besti vinur minn en það verður að setja það til hliðar þegar inn á völlinn er komið, þetta þurfa ekki að vera furðulegar aðstæður og maður hefur stundum lent í þessu að spila á móti vinum sínum. Við Danni spilum saman síðar en á meðan það er ekki þá setur maður bara þrist í grillið á honum!“
Nú loks þegar kemur veglegt framlag úr mörgum áttum í Njarðvíkurliðinu þá fara hlutirnir að ganga betur, voru grænir kannski að leggja of miklar byrðar á of fá leikmenn?
,,Það er ekki þannig að einhverjir ákveðnir leikmenn eigi að skora 20 stig alltaf, við erum alveg niður í tíunda mann sem getum skorað mikið en þegar við gerum þetta saman og höfum trú á hverjum öðrum þá er þetta fínt,“ sagði Jóhann sem er orðinn vanur því að leika stórleiki í bikar strax í 32 liða úrslitum.
,,Þetta loðir svona við okkur enda mættum við KR í fyrra í 32 liða úrslitum en við horfðum á gamlan bikarúrslitaleik fyrir þennan leik, 2005 leikinn gegn Fjölni og það gaf okkur helling að sjá stúkuna fulla af Njarðvíkingum. Það er langt síðan við höfum farið í Höllina og ef svona leikir eins og 2005 leikurinn gegn Fjölni kveikir ekki í mönnum þá gerir það ekkert.“
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – Jóhann Árni leiddi Njarðvíkinga til sigurs gegn Stjörnunni í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins.



